Fyrir tíu árum sást ekki hræða á Laugaveginum á kvöldin, nema ein og ein sál sem skaust inn á Ítalíu að fá sér pítsu. Mannlífið í miðbænum hefur heldur betur tekið stakkaskiptum með blessuðum ferðamönnunum. Allt iðar af fjöri og alls konar framandi lykt berst út af veitingastöðum. Í góðu veðri á sumrin má meira að segja heyra englaraddir eða fiðlara með peningahatt. Stemning! Ferðamennirnir komu eins og himnasending eftir hrun og valda því að við stöndum í lappirnar, rétt eins og „blessað“ stríðið hélt okkur á floti á sínum tíma. Svo einfalt er það.
Á hinn bóginn eru það ekki alltaf bara ferðamenn sem fylla miðbæinn. Fyrir jólin og á hátíðisdögum er þar örtröð. Vinur minn sem var í sönghópi fyrir jólin segir reyndar að það hafi skipt sköpum þegar lokað var fyrir bílaumferð, er nær dró jólum. Þá fylltist allt af lífi og viðskiptin blómstruðu. Væri kannski tilraunarinnar virði að lengja göngugötuna í sumar?
Hvað sem því líður getum við farið að velta fyrir okkur hvernig þægilegast er að fara í stórborgargír á gangstéttinni, í verslunarmiðstöðvum og víðar. Eins og annars staðar á almannafæri eru lipurð, meðvitund og sveigjanleiki lykilorð. Svo spillir aldrei að hafa léttan svip! Það er aldrei að vita nema við léttum lífið einhvers sem þarf á því að halda, ef við erum ekki eins og þremillinn í framan.
Þegar ég var í námi í London, gerði ég mér stundum að leik að fara niður á Oxford Street og fylgjast með þvögunni á gangstéttunum. Þar er sveigjanleika mannfjöldans svo fyrir að þakka, að hægt er að ganga hugsunarlaust beint af augum í kösinni, án þess að rekast á.
Vitanlega var þetta samt bara frekja í mér, eða kannski hef ég bara svona stóra áru, - grín!
Þægilegra er að hafa einhverjar reglur til viðmiðunar. Einfalt er að halda sig við almennar umferðarreglur. Til dæmis keyrum við hægra megin á götunni af því að þá eigum við ekki á hættu að rekast á umferðina á móti.
Í fyrra leit ég í búðir á fínu verslunargötunni Kurfürstendamm í Berlín. Á kafla voru gatnaframkvæmdir og mannfjöldinn þurfti að ganga yfir þrönga bráðabirgðabrú. Það var eins og við manninn mælt, að allir gengu hægra megin á brúnni og allt gekk greiðlega. Þjóðverjar, alltaf góðir!
1. Göngum hægra megin. Við getum samt hliðrað til fyrir þeim sem á móti koma, ef þeir vilja endilega vera vinstra megin. Annars hef ég tekið eftir því að margir hafa tilhneigingu til að ganga fjær götunni; næst húsalengjunni. Þetta þýðir að ef við göngum vinstra megin við götuna, er auðveldara að vera hægra megin á gangstéttinni! Hægri reglan á ekki síst við þegar beygt er fyrir horn til vinstri. Þá sjáum við ekki þá sem kunna að koma á móti og getum fengið þá í fangið, ef við þrjóskumst við að vera vinstra megin.
2. Lítum í kringum okkur áður en við göngum út úr húsi á gangstéttina. Ef við göngum rakleiðis út, getum við rekist á þá sem koma gangandi. Að minnsta kosti heftum við för þeirra, jafnvel þótt þeir séu með rænu og víki fyrir okkur. Ef við lítum á gangstéttina sem aðalbraut, er þetta leikur einn.
3. Höldum gangstéttinni opinni fyrir þá sem vilja hraða sér. Það þykir ekki ósiður í umferðinni að keyra samhliða á tveimur akreinum og teppa þannig umferðina. Á sama hátt þurfum við að riðla röðinni á gangstéttinni, þegar við göngum hlið við hlið fleiri saman, ef einhver þarf að komast fram úr eða mæta okkur.
4. Þegar við hittum einhvern sem okkur langar að spjalla við, drögum okkur þá til hliðar. Það er líka flottara að kynna þann sem er með manni fyrir þeim sem maður þarf að spjalla við!
5. Strákar, það er dálítið töff að leyfa skvísunni að vera fjær umferðinni. Þá slettist síður á dressið hennar ef vatn og aur skvettist af bílunum. Og ekki ganga á undan henni (það á reyndar við um bæði kyn á öllum aldri). Haldið á regnhlífinni fyrir hana, en þá má hún heldur ekki toga handlegginn niður með því að leggja höndina á olnbogakrikann, heldur styðja undir hann. Svo finnst stelpum mjög sexí (meira en upphandleggsvöðvar) að aðstoða þá sem þurfa á hjálp að halda, til dæmis gamalt fólk á svelli eða ferðamenn sem vita ekkert hvert þeir eru að skreppa. Reyna bara að vera pínulítið smart, það gefur lífinu lit!
Athugasemdir