Afi! Viltu gjöra svo vel að koma hingað strax“, kallaði afaljósið með nokkrum þjósti úr sjónvarpsherberginu. Hvaða ósköp talar barnið allt í einu frekjulega við afa sinn, hugsaði ég. Jafnskjótt laust niður í hugann endurómur af eigin rödd: „Marsibil! Viltu gjöra svo vel að koma hingað strax!“ Þetta er það sem felst í orðtækinu sígilda: Það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Ójá, við fáum allt í höfuðið aftur; gerðir, orðfæri og tóninn.
Gifta barnanna okkar er fjöregg til framtíðar. Þau geta auðveldlega tileinkað sér að vera blátt áfram í framkomu og um leið tillitssöm, ef þeim er kennt það og best að setja sér strax að vera góð fyrirmynd. Fyrir vikið standa þau betur að vígi á flestum sviðum lífsins það sem eftir er. Þegar ég varð afi, skildi ég að mest er þó um vert að gleðjast yfir hverri stund, því að hún gefst ekki aftur. Oft er gott sem gamlir kveða, hoknir af reynslu!
Hér eru fimm atriði sem liggja í augum uppi, en samt þarf ég sífellt að minna mig á þau!
1 (tvö og þrjú): Það læra börnin sem fyrir þeim er haft
Enginn er fullkominn, en við þurfum að hafa eftirlit með eigin framkomu og spyrja okkur spurninga eins og: Nota ég meiðandi tungutak? Hagræði ég sannleikanum? Fer ég í manngreinarálit? Geri ég grín að minnihlutahópum, fötluðum, feitum, málhöltum, ófríðum?
2 Útskýrum reglurnar í stað þess að skipa fyrir
Þegar barn grípur sífellt fram í fyrir öðrum, er freistandi að segja: „Þegiðu einu sinni meðan aðrir tala!“ Samningaviðræður geta tekið á taugarnar, en margborga sig þegar til lengri tíma er litið: „Sá sem er að tala verður að fá að klára það sem hann ætlar að segja, annars verður hann svo leiður og við skiljum ekki nógu vel hvað hann er að hugsa. Nú skulum við leyfa Gunnari að klára það sem hann ætlaði að segja og svo mátt þú!“
3 Hrósum þegar tilefni gefst til
„Alltaf manstu eftir að fara úr skónum, þú ert svo tillitssöm,“ eða: „Takk fyrir að setja glasið í uppþvottavélina, þú ert svo duglegur,“ geta virst lítilfjörleg atriði, en skipta samt máli.
4 Beitum mildum ráðningum, samkvæm sjálfum okkur
Agi, uppörvun og ástúð eru greinar af sama meiði. Beitum aldrei ofbeldi, því að í því felst fordæmi. Þegar barn hendir matnum á borðið, langar okkur kannski mest að loka það inni í herbergi. Árangursríkara er að gefa þrjár skýrar viðvaranir á rólegan hátt: „Stóllinn verður dreginn frá borðinu þar til þú hefur ákveðið að hætta að henda matnum á borðið.“ Það reynir á að hlusta á barnið góla, en ef við sýnum stillingu og erum samkvæm sjálfum okkur, eru meiri líkur á að það sættist við okkur smám saman. Ekki auðvelt, en þess virði að reyna. Barnið verður hins vegar að finna að okkur þyki vænt um það, hvað sem á dynur. Hlý faðmlög og mildi verða því að fylgja í kjölfarið þegar sigurinn hefur verið unninn.
„Agi, uppörvun og ástúð eru greinar af sama meiði.“
5 Berum ábyrgð á börnunum okkar, heima sem að heiman
Skerumst í leikinn þegar börnin okkar gerast skæruliðar, toga í dúka, skoða í skúffur. Það er ekki hlutverk gestgjafa að ala börnin okkar upp.
Fátt vekur meiri bjartsýni en geislandi æska, full af lífsorku og eftirvæntingu. Eitt ábyrgðarmesta hlutverk sem við tökumst á hendur í lífinu er að hlúa að þessum viðkvæma æskugróðri, nýjabrum á vori getur verið viðkvæmt fyrir áföllum. Jafnframt er það eitt hið vandasamasta því að engin tvö börn eru eins. Um leið er uppeldið skemmtilegasta hlutverkið okkar, því að „börn eru besta fólk“!
Athugasemdir