Vinkona mín segist geta lesið úr aksturslagi karlmanns hvernig hann sé í rúminu. Ef hann þjösnast í umferðinni er hann að öllum líkindum vonlaus elskhugi, en ef hann er lipur eru líkur á að hann hafi þá karlmennsku, sveigjanleika og næmni sem þarf til þess að vera almennilegur bólfélagi.
Flest teljum við okkur góða bílstjóra og flest nöldrum við yfir hryðjuverkamönnum í umferðinni. Slíkt tuð með samanherptum kviðvöðvum, spennu í öxlum og hækkuðum blóðþrýstingi kemur því miður ekki niður á hryðjuverkamönnunum, heldur aðeins okkur sjálfum. Með léttum huga og dálitlu ímyndunarafli getum við stjórnað líðan okkar, en ekki þeir.
Hvað ef sperrileggurinn er að flýta sér á sjúkrahús þar sem dóttir hans hefur verið lögð inn með bráðalungnabólgu? Hvað ef svefngengillinn sem læðist fyrir mann er í vandræðum með bíldrusluna, en þorir samt ekki að stöðva bílinn eftir að hann er kominn af stað? Kannski dauðskammast hann sín … Gott ef okkur fer ekki bara að þykja vænt um þetta fólk!
„Við sýnum innri mann í umferðinni, meira að segja hvernig við erum í rúminu.“
Kannski hefur það enga sérstaka ástæðu til þess að keyra eins og flón, en það skiptir engu máli, hér hugsum við fyrst og fremst um eigin líðan og heilsu. Passaðu þrýstinginn, maður.
Svo erum við heilmikið að skána. Síðast í dag sá ég gaur á Vesturlandsvegi sem færði sig yfir á vinstri akrein til að dúddinn á aðreininni kæmist óhindrað inn á veginn. Allir sem komu á eftir gerðu slíkt hið sama. Ég hugsaði með mér: Jibbíjei, ég bý í siðmenntuðu samfélagi! En ýmislegt getum við gert betur, sem stendur ekki endilega í umferðarreglum. Sjálfsagt væri hægt að nefna hundrað atriði, en góða skapið fleytir okkur þó lengst.
1 Leyfum öðrum að bakka í stæði.
Þegar sá sem er á undan okkur gefur stefnuljós til þess að leggja í stæði, förum við ekki upp að rassinum á honum, heldur stoppum í hæfilegri fjarlægð svo að við hindrum hann ekki í að bakka í stæðið.
2 Víkjum þegar hindrunin er okkar megin.
Þegar ökumenn sjá hindrun á sínum vegarhelmingi (til dæmis krana), er algengt að þeir sveigi yfir á vinstri vegarhelming, að minnsta kosti að hluta til, án tillits til þess hvort einhver kemur á móti.
Hættumussum.
3 Hleypum yfir þegar við sitjum föst.
Í röðinni á Laugaveginum hreyfumst við ósjaldan skref fyrir skref, en það er eitthvað bjánalegt við að troða sér upp að rassinum á næsta bíl og planta sér þannig beint fyrir framan röðina á Barónsstíg. Þá kemst enginn neitt, hvorki við né runan á Barónsstígnum. Myndum frekar bil á eftir næsta bíl, hleypum þeim sem bíða eftir því að komast yfir Laugaveginn í löngum bunum og leyfum gleðihormóninu endorfín að streyma um æðar!
4 Einn í einu þegar tvær akreinar renna saman í eina.
Við hraðahindranir þar sem akreinar renna saman í eina, er fljótlegast að bíllinn sem kom fyrstur að hraðahindruninni fari yfir, síðan bíllinn á móti og svo koll af kolli, einn í einu hvorum megin. Þess vegna stoppum við þegar bíllinn á undan okkur hefur farið yfir og hleypum næsta bíl á móti yfir.
Ef öll strollan hinum megin kemur á móti okkur, kærum við okkur hins vegar kollótt og veifum öllum ef við erum í sérlega góðu skapi.
5 Hleypum fram úr á umferðarljósum.
Þegar við erum fyrst á umferðarljósum á götu með einni akrein og ætlum að beygja til vinstri, leggjum þá strax af stað eins langt og við komumst fyrir umferðinni á móti, til þess að greiða fyrir þeim sem eru fyrir aftan og vilja fara beint áfram.
Ef við erum hins vegar á eftir sofandi sauð sem situr sem fastast, flautum við samt ekki, bíðum bara róleg, ökumaðurinn á undan er kannski taugaveiklaður í umferðinni og ekki á það bætandi! Góða skapið er lykilatriði.
Við sýnum innri mann í umferðinni, meira að segja hvernig við erum í rúminu. Það er því til nokkurs að vinna að hafa bara gaman af þessu.
Athugasemdir