„Engir menn eru jafn óþolandi og þeir sem halda að þeir séu ómissandi,“ mælti Davíð Oddsson þáverandi forsætisráðherra í viðtali við DV fyrir réttum fimmtán árum, þegar hann hafði setið í Stjórnarráðinu í tíu ár og verið borgarstjóri í Reykjavík í átta ár þar á undan. Óhætt er að taka undir orð Davíðs en það er líka mála sannast að ótrúlega margir þaulsætnir valdamenn virðast einmitt fyllast þessari blekkingu þegar árin líða – að þeir séu ómissandi og engum öðrum sé treystandi til að leysa vandamál en þeim. Það má vel tala um valdasýki í þessu sambandi, en fræðimenn greinir á um hvort sú sýki er sálrænn kvilli eða hreinlega líkamlegur – hvort skrokkur valdamannsins sé orðinn háður einhverjum endorfínum sem leysast úr læðingi þegar hann fær að knýja fram vilja sinn … eina ferðina enn.
Mörg dæmi mætti nefna um „óþolandi [valdamenn] sem halda að þeir séu ómissandi,“ líkt og Davíð orðaði það á sínum tíma og segja má að „lifi sjálfa sig“ á valdastólunum. Undantekningarlaust hafa mjög þaulsætnir valdamenn þá tilhneigingu að raða í kringum sig „já-mönnum“ sem eiga að lokum allt sitt undir valdamanninum, og keppast því við að hlaða undir sjálfsálit hans og þá trú að hann sé ómissandi.
Nöturlegt dæmi um þetta var Konstantínus mikli keisari í Rómaveldi. Hann andaðist í maí árið 337 eftir Krist. Hann hafði þá ríkt í þrjátíu ár og var orðinn svo „ómissandi“ að í nokkra mánuði eftir lát létu hirðmenn hans líkið sitja uppdubbað í hásætissalnum í höfuðborg hans í Miklagarði og þangað komu þeir skjálfandi á beinunum til að bera undir hinn dauða keisara alls konar stjórnvaldsráðstafanir sem sinna þurfti. Ekki mun Konstantínus hafa hreyft miklum mótmælum við ráðstöfunum hirðmanna sinna, og er hermt að allt hafi gengið sinn vanagang í ríkinu þessa mánuði, sem sýnir nú líklega hve „ómissandi“ valdamaðurinn var í raun og veru – keisarinn gat bersýnilega sinnt stjórnsýslunni jafn vel dauður og lifandi.
Það var ekki fyrr en í ágúst sem hinn fyrsti af þremur sonum Konstantínusar náði til Miklagarðs og lét krýna sig arftaka föður síns sem líkið gat loks dregið sig í hlé og ekki vanþörf á – það var orðið ansi rotnað eftir að hafa setið uppi í hásætinu heilt langt sumar við Hellusund og gilti einu þótt puntumeistarar hirðarinnar hefðu ausið yfir það ilmdufti mánuðum saman og roðið þefmjúku viðsmjöri.
Það var svo ekki fyrr en synir Konstanínusar fóru hver um sig að ímynda sér að þeir væru ómissandi sem allt fór í hund og kött í ríkinu.
Annað dæmi um sorglega „ómissandi“ valdamann er António Salazar einræðisherra Portúgals 1933-1968. Óhætt er að segja að einnig hann „lifði sjálfan sig“ sem valdsherra.
Salazar fæddist árið 1889, hann var af alþýðufólki kominn og ætlaði sér um tíma að læra til prests. Svo snerist honum hugur, hann heillaðist af hagfræði og tók doktorspróf í þeirri grein 29 ára gamall. Þótti hann hafa góðar gáfur og var einstaklega vinnusamur og nákvæmnismaður fram í fingurgóma.
Þá háttaði svo til í Portúgal að 1910 hafði kóngurinn Manúel II verið afskaffaður og lýðveldi var komið á. Mátti það ekki seinna vera því konungdæmið var orðið feyskið mjög og fúið og engan veginn í stakk búið til að leysa vandamál nýrra tíma. Gallinn var sá að Portúgalir voru illa undir lýðræði búnir og nú braust út sannkölluð óöld í landinu. Á þeim sextán árum sem hið svonefnda „fyrsta lýðveldi“ var við lýði gekk á með stöðugum stjórnarskiptum, óeirðum, byltingum og byltingartilraunum, pólitískum morðum, trúarofsóknum, fangelsunum og hryðjuverkum. Átta menn gegndu forsetaembætti á þessum tíma, um ríkisstjórn var skipt 44 sinnum og uppreisnir og/eða byltingartilraunir voru 21. Á árunum 1920-1925 sprungu sprengjur 325 sinnum á götum höfðborgarinnar Lissabon, að því er opinberar tölur lögreglunnar herma.
Ástæður fyrir þessum hörmungum eru margar og flóknar. Alla lýðræðishefð skorti og gamlar valdaklíkur snerust af hörku gegn tilraunum vinstri manna til að koma á vísi að velferðarríki. Herinn, kirkjan og hin öfluga Frímúraregla börðust með kjafti og klóm fyrir sínum hagsmunum. Sumir vildu endurreisa konungsríkið, aðrir koma á Sovét-Portúgal.
Og það segir sig auðvitað sjálft að við slíkar aðstæður fór efnahagur landsins í rúst og hafði ekki verið beysinn fyrir. Portúgal var í raun frumstætt landbúnaðarland, iðnvæðing var skammt á veg komin en Portúgalir arðrændu hins vegar nýlendur sínar í Afríku og víðar: stærstar voru Angóla og Mósambik.
Árið 1926 tók herinn völdin í landinu. Tilgangurinn var náttúrlega – eins og alltaf þegar herinn hrifsar til sín völd – að koma á „stöðugleika“ og „eyða óvissu“ og var reyndar auðvelt að halda því fram að slíkt væri nauðsynlegt í Portúgal. Og nú var Salazar, sem orðinn var hagfræðiprófessor, kallaður til og gerður að fjármálaráðherra. Honum voru fengið mjög víðtæk völd til að reyna að koma fjárhag hins illa stadda ríkis á réttan kjöl og það tókst honum ótrúlega vel. Með miklu aðhaldi og viðsjálni tókst Salazar að rétta við efnahaginn og koma í veg fyrir að Portúgalir færu mjög illa út úr heimskreppunni sem skall á 1929.
Salazar talaði ævinlega eins og honum væri þvert um geð að sækjast eftir völdum. Hann gerði til dæmis tilraun til að segja af sér sem fjármálaráðherra en herstjórnin tók ekki mark á afsögninni. Og Salazar varð sífellt valdameiri í ríkisstjórninni og skoðanir hans á samfélagsmálum urðu brátt þær einu réttu. Árið 1933 varð Salazar forsætisráðherra í nýrri ríkisstjórn sem mynduð var eftir að samþykkt hafði verið ný stjórnarskrá sem fylgdi hugmyndum hans í einu og öllu.
„Hann taldi að Portúgalir væru með hörkulegu arðráni sínu að „siðmennta“ íbúa.“
Og hverjar voru þær hugmyndir? Jú, Salazar var í raun og veru fasisti. Hann var mjög afturhaldssamur í öllum samfélagsmálum, vildi að ævafornum siðaboðskap kaþólsku kirkjunnar væri fylgt í hvívetna, og samfélagið byggðist á stéttasamvinnu og heildarhugsun (korpóratisma) þar sem einstaklingurinn þyrfti ævinlega að lúta heildinni. Slíkar hugmyndir voru mjög víða á kreiki í Evrópu þá og fasistar komust miklu víðar til valda en bara á Ítalíu og í Þýskalandi.
Nú stýrði Salazar hinu svonefnda „Estado Novo“ eða „Nýja ríki“ sem komið var á fót í Portúgal og þótt hann væri hvergi nærri eins hörkulegur stjórnandi og Mussolini og hvað þá Hitler, þá var stjórn Salazars samt ósvikin fasistastjórn. Salazar hafði vit á að vera fyrst hlutlaust en efla síðan vináttu við Bandamenn í síðari heimsstyrjöldinni, sem leiddi til þess að Vesturveldin vildu ekkert amast við stjórnarháttum hans eftir að stríðinu lauk, og Salazar var óhikað áfram til völd. Og hinn samviskusami fjármálaráðherra, sem hafði gefið til kynna að honum félli illa að gegna valdastöðu og ætlaði bara rétt að klára sín verkefni, og hverfa svo á braut, hann var fyrr en varði farinn að líta svo á að hann væri „ómissandi“, enginn nema hann gæti staðið gegn „óreiðunni“ og „óvissunni“ sem myndi óhjákvæmilega fylgja ef hann léti af völdum.
Leið nú og leið, Salazar eltist og staðnaði í trúnni á eigin mikilfengleika, leynilögreglan sýndi æ meiri hörku í að brjóta alla andstöðu við hann á bak aftur og efnahagslífið – sem hafði verið fjöður í hatt hans – staðnaði og fór aftur. Og þótt nýlenduveldi eins og Bretland og Frakkland væru í óða önn að sleppa takinu af nýlendum sínum taldi Salazar af og frá að Portúgal gerði slíkt sama. Hann taldi að Portúgalir væru með hörkulegu arðráni sínu að „siðmennta“ íbúa í nýlendunum, og það væri þeirra guðdómlega verkefni. Og þegar innfæddir nýlendubúar vildu sjálfstæði sendi Salazar portúgalska herinn móti þeim.
Tíminn leið og í stað þess frelsis sem Portúgalir voru farnir að þrá, þá taldi Salazar að óbreytt hyskið ætti að gera sig ánægt með „fótbolta, fadó og Fatímu“ en ekki hirða um pólitík eða tjáningarfrelsi. Markvisst var ýtt undir fótboltaiðkun með þeim afleiðingum að um 1960 varð Benfica í Lissabon eitthvert öflugasta fótboltalið heims með Mósambik-manninn Eusébio í broddi fylkingar og með hinna tregafullu og tilfinningaríku fadó-tónlist áttu Portúgalir að fá útrás fyrir óánægju sína og sorgir í lífinu – þeir áttu að syngja um allt slíkt og láta þar við sitja. Og með Fátimu var átt við kaþólsku kirkjuna sem hélt staðfastlega að fólki átrúnaði á dýrlingum eins og „Maríu mey frá Fátimu“ skammt frá Lissabon.
Konstantínus mikli keisari kunni að hætti Rómverja að bjóða upp á „bauð og leika“ til að friða alþýðuna og sætta hana við stjórnarfarið en hjá Salazar hét það sem sagt „fótbolti, fadó og Fátima“.
Þann 15. september 1968 veiktist Salazar alvarlega. Hann var orðinn 79 ára gamall en hafði ekki sýnt minnstu merki um að vilja draga úr völdum sínum og hvað þá segja af sér. Eftir 35 ár á stóli forsætisráðherra taldi hann sig algjörlega ómissandi og í kringum hann voru eintómir smjaðrarar og sníkjudýr sem jöpluðu hver eftir öðrum að hinn mikli leiðtogi væri einmitt alveg ómissandi og Portúgal gæti alls ekki án hans verið.
En nú fékk hann svo alvarlegt áfall að hann féll í djúpt dá og „hirðmenn“ hans komust að þeirri niðurstöðu, eftir að hafa ráðfært sig við lækna, að dauði hans væri bara dagaspursmál. Hann fékk því hinstu smurningu og forseti Portúgals (sem var valdalítið embætti í „Nýja ríkinu“) ákvað að skipa þegar í stað eftirmann hans. Fyrir valinu varð Marcello Caetano lagaprófessor og fyrrverandi náinn aðstoðarmaður Salazars. Hann tók þegar við völdum og svo biðu menn þess að Salazar gæfi upp öndina.
En viti menn. Salazar dó ekki, þvert á móti vaknaði hann úr dái sínu og varð aftur viðræðuhæfur þótt hann væri hvergi nærri samur maður og fyrr. Og þá fór nú aldeilis hrollur um hirðmenn hans. Yrði Salazar ekki algjörlega brjálaður þegar hann frétti að þeir hefðu ekki haft meiri trú á því hve ómissandi hann væri en svo að hann hefði verið settur úr embætti bara við að veikjast svolítið?! Mundi hann ekki senda sína illræmdu leynilögreglu af stað?
Lausn þeirra var einföld og nánast fögur í einfaldleik sínum. Þeir sögðu Salazar bara alls ekki frá því að hann væri ekki forsætisráðherra lengur. Honum var sagt að hann yrði að halda sig inni við á næstunni og slappa af meðan hann væri að ná sér en að sjálfsögðu væri hann hinn ómissandi valdamaður sem fyrr. Og svo komu hirðmennirnir öðru hvoru og báru undir Salazar ýmis aðkallandi verkefni og spurðu hvernig ætti að afgreiða hitt og þetta – en allt var þetta tómur blekkingarleikur og Caetano stjórnaði ríkinu. Með því að halda Salazar nær algjörlega einangruðum tókst hirðmönnunum að fá einræðisherrann til að trúa því að allt væri óbreytt og hann réði öllu. Og Salazar var hamingjusamur um skeið – hún er máttug valdasýkin.
Undir lokin voru víst farnar að renna tvær grímur á Salazar. Þetta var allt frekar skrýtið, fannst honum. Það var undarlega sjaldan sem menn komu til hans með plögg að undirrita. En hann horfðist samt aldrei í augu við það sem gerst hafði. Til dauðadags í júlí 1970 trúði Salazar því að hann væri forsætisráðherra – og ómissandi.
Athugasemdir