Við ólumst öll upp við þá sýn á lífið að sem Íslendingar myndum við vaxa úr grasi og eignast okkar eigið heimili. Þessi íslenski draumur um að vera manns eigin herra í eigin húsnæði er í uppnámi hjá heilli kynslóð Íslendinga.
Við höfum verið með ríkisstjórnir sem leiddar eru af miðaldra auðmönnum af ríkum ættum, uppaldir með silfurskeið í munni. Þótt ekki eigi að mismuna fólki eftir auði þess verður að varast afleiðingar þess að þröngur sérhagsmunahópur sem lifir í eigin veruleika gæti hagsmuna okkar sem heildar.
Stefna þeirra er að setja sífellt fleira í hendurnar á sambærilegum mönnum úr almannaeign. Á meðan þessir stjórnmálamenn gæta hagsmuna okkar stíga aðilar eins og hundrað milljarða króna fjárfestingasjóðurinn GAMMA fram og leggja til stórfelldan flutning eigna og arðs úr eigu almennings til fjárfesta.
Það er kominn tími til að vakna af draumnum og átta sig á því að við lifum í landi jakkafatanna sem reyna markvisst að taka yfir allt.
Svikna kynslóðin
Það er verið að svíkja heila kynslóð Íslendinga. Tölurnar sýna það. Stórfelld tilfærsla á tekjum og eignum er að færast frá ungu fólki til eldra fólks.
Stjórnmálamenn, eins og Bjarni Benediktsson, hrósa sér af kaupmáttaraukningu, en láta hjá líða að nefna misskiptingu hennar eftir kynslóðum.
Hækkun á ráðstöfunartekjum á árunum 2000 til 2015, að teknu tilliti til skatta og allra tekna, var smávægileg fyrir yngri kynslóðina. Heildarráðstöfunartekjur 25 til 29 ára fólks jukust um 9 prósent, en 60 til 66 ára juku ráðstöfunartekjur sínar um 140 prósent á sama tíma. Fólk undir 24 ára jók kaupmátt sinn aðeins um 4 prósent á tímabilinu.
Alið á ótta við hrægamma
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson reyndi að selja Íslendingum að hann myndi sigra hrægamma, erlenda kröfuhafa, en niðurstaðan er að margir ungir Íslendingar eru skildir eftir í höndunum á ógagnsæjum fjárfestingasjóðum eins og GAMMA.
„Leiðréttingin“ leiddi í reynd af sér áframhald á þróun misskiptingar kynslóðanna. Tekjuháir hópar fengu 86 prósent af leiðréttingunni. Það hvort hagur þinn batni eða versni á Íslandi tengist fyrst og fremst kynslóð þinni. Hópurinn sem er að tapa í hagsmunabaráttunni á Íslandi er hópurinn sem tekur ekki þátt í henni, stýrir ekki landinu, tekur ekki ákvarðanirnar, og stefnir í að verða varanlega eftir á.
„Aðeins þeir, sem fá aðstoð frá foreldrum eða búa hjá þeim lengur, geta keypt íbúð,“ segir 23 ára læknanemi í samtali við nýjasta tölublað Stundarinnar.
„Húsnæðismarkaðurinn hér er mjög óhagstæður og svo eru ferðamennirnir í beinni samkeppni við unga fólkið. Við fjölskyldan erum að pæla í því að flytja til útlanda á næstu árum,“ segir hagfræðingur, ung móðir, sem getur ekki eignast heimili á Íslandi.
Í klóm GAMMA
Eftir leiðréttinguna, sem að sögn Bjarna Benediktssonar var ekki tekjujöfnunaraðgerð, þarf ungt fólk meira og meira að leita á náðir aðila eins og GAMMA ef það ætlar að koma sér upp heimili. GAMMA er nátengt Almenna leigufélaginu sem nýlega keypti upp leigufélag í eigu Íbúðalánasjóðs, eða eigu okkar allra, vegna þess að félagsmálaráðherra Framsóknarflokksins taldi það ekki í hlutverki ríkisins að eiga fasteignir. Einkarekna leigufélagið GAMMA eignaðist þannig 450 íbúðir á einu bretti í þeim tilgangi að hagnast á útleigu húsnæðis. Í kjölfarið hófust verulegar hækkanir á leigu. Stór hluti fólks, sérstaklega ungt fólk, hefur engan möguleika á að ná fram útborgun í íbúð, nema þau sem búa að efnuðum foreldrum. Framboð af leiguhúsnæði er að öðru leyti í sögulegu lágmarki og verðinu þrýst upp með útleigu til ferðamanna.
Munurinn á opinberu og einkareknu leigufélagi er sá að það einkarekna ætlar sér að hagnast á leigjandanum. Leigufélag GAMMA hagnaðist um 840 milljónir króna árið 2015, áður en það hátt í tvöfaldaði fjölda íbúða til leigu með hjálp íslenskra stjórnmálamanna.
GAMMA er ógagnsætt félag, hvers eignarhald er að stórum hluta í reynd á huldu. En hluti af fjárfestingum GAMMA er með hjálp lífeyrissjóða. GAMMA er þannig tæki eldri kynslóðarinnar til að hagnast enn frekar á yngri kynslóðinni sem skilin hefur verið eftir í kaupmáttaraukningu þessarar aldar.
Hagsmunabaráttan hverfist um kynslóðir
Hægt er að reikna út með tölum Hagstofunnar hvernig eignir Íslendinga hafa safnast meira á hendur eldri aldurshópanna. Á árinu 1997 áttu 67 ára og eldri 18 prósent eigna Íslands umfram skuldir. Árið 2015 var sami hópur kominn með 25 prósent eignanna. Yngri aldurshóparnir, fram að sextugu, áttu hlutfallslega minna af eignum. Langmesti hluti eignanna var eign í húsnæði.
Slík eignasamþjöppun er ekki sjálfsögð þótt sjálfvirk tilhneiging sé til hennar að þeir sem eiga eignist meira með vöxtum og annarri gjaldtöku frá þeim sem eiga ekki.
Staðan er því þannig að ungt fólk kemst ekki inn á húsnæðismarkaðinn, þar sem mest öll eignamyndunin verður, og eykur jafnframt ráðstöfunartekjur sínar mun minna en eldri aldurshópurinn, sem flytur síðan fjármuni sína beint eða óbeint í eignastýringu hjá sjóðum eins og GAMMA sem sækjast eftir því að hagnast á ungu fólki með leigutekjum, og vill innheimta vexti af námslánum, toll fyrir akstur og arð af sameiginlegum auðlindum.
Forstjóri GAMMA leggur til að ríkið láti einkaaðila meira um vegaframkvæmdir, að rukkaðir séu vegtollar, að hluti orkufyrirtækja í sameiginlegri eigu verði seldur og svo framvegis. Framundan eru tugmilljarða króna arðgreiðslur til ríkisins frá Landsvirkjun, sem nýtast í opinbera þágu, en myndu þjóna þeim tilgangi að auðga ríkustu einstaklingana enn frekar ef hugmyndum GAMMA verður fylgt.
Jakkafötin taka yfir
Jakkafötin vilja eiga vegina. Þau vilja rukka við borgina og rukka við hellana, gígana og hverina. Þau vilja bankana og orkuna og eru byrjuð að taka heimilin.
Ríkisstjórn jakkafatanna var mynduð með minnihluta atkvæða á bakvið sig og nýtur nú stuðnings minna en þriðjungs kjósenda. Þegar Benedikt Jóhannesson, Óttarr Proppé og Bjarni Benediktsson skrifuðu undir stjórnarsáttmála kom í ljós að húsnæðismál voru ekki á blaðinu. En þar voru vísbendingar um að þeir ætluðu sér að standa fyrir þjóðvegum í einkaeigu.
„Þú ert ekki fátækur ef þú átt bíl“
„Þú ert ekki fátækur ef þú átt bíl,“ sagði Brynjar Níelsson, lögmaður og þingmaður úr Sjálfstæðisflokknum, þegar kvartað var undan gjaldtökunni.
Venjulegt ungt fólk hefur þurft að leita í blokkaríbúðir í svefnhverfum í borg skipulagðri af talsmönnum einkabílsins, sem gera varla ráð fyrir lífi án bíls. Annar hópur hefur farið úr borginni til að flýja fasteignaverð sem ýtt er undir af ferðamannagóðærinu.
Í nýju samfélagsmyndinni okkar er dæmigerð framtíðarsýn ungs Íslendings að vinna í þjónustu fyrir ferðamenn, keppa um húsnæði við þá (og tapa), flytja á jaðarsvæði þar sem leiguverð er lægra, og borga vegtolla til að komast í og úr þjónustustarfinu fyrir ferðamennina frá heimilinu sem er í eigu GAMMA.
Hverjir eru með í u-beygjuna?
Ísland er að svíkja heila kynslóð og mun gjalda fyrir það eins og önnur lönd sem drepa drauma. Fyrr eða síðar hlýtur fólk sem er snuðað að rísa upp gegn valdinu, ef valdið hefur ekki náð að styrkja sig endanlega í sessi með hægfara en samfelldri tilfærslu eigna og valdheimilda.
„Lífsgæðin eru á alla mælikvarða með því besta sem gerist. En það verður að taka réttar ákvarðanir og fylgja eftir þessum árangri. Og þetta er ekki tíminn til þess að taka u-beygju og snúa við,“ sagði Bjarni Benediktsson í kynningarmyndbandi fyrir kosningar. Í kosningasjónvarpinu sakaði hann aðra um að vilja „þrífa í stýrið“.
Kannski eru jakkafötin á réttri leið. Eðlilega vilja þau að við förum að tollahliðinu. En það virðist hafið yfir allan vafa að svikna kynslóðin ætti ekki lengur að vera aftursætisfarþegi í þessari ferð.
Athugasemdir