„Ég hef beðið framkvæmdastjóra flokksins að taka saman þessa styrki og við munum skila þeim. Þó ekki til Samherja heldur munum við hafa samband við hjálparstofnanir, til dæmis SOS sem sér um barnaþorp í Namibíu, og við munum skila þeim þangað.“ Þetta segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi segir að hann hafi enn sem komið er ekki fengið upplýsingar um hversu há umrædd upphæð sé. Eftir því sem hægt er að sjá í gögnum sem Samfylkingin hefur skilað inn til Ríkisendurskoðunar, útdráttum úr ársreikningum flokksins, má sjá að á árabilinu 2003 til 2018 fékk flokkurinn styrki frá Samherja í sex tilvikum. Árið 2003 fékk Samfylkingin 350 þúsund króna styrk frá Samherja, árið 2007 og 2009 var styrkupphæðin 300 þúsund krónur, árin 2013 og 2015 fékk flokkurinn 400 þúsund krónur í styrk og nú síðast, árið 2018, styrkti Samherji Samfylkinguna um 200 þúsund krónur.
Alls nema styrkirnir því tæpum tveimur milljónum, 1.950 þúsund krónum.
Logi segir að stjórn flokksins þurfi formlega að ákveða þessa aðferð. „Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að þar verði ekki andstaða við þessa hugmynd. Við munum láta þessa fjárhæð renna til fólksins í Namibíu með einhverjum hætti.“
Athugasemdir