Sjálfstæðisflokkurinn fékk 79 milljónum króna hærri ríkisframlög í fyrra en árið á undan. Aldrei í sögunni hefur stjórnmálaflokkur fengið jafn háa upphæð frá ríkinu. Framlög sveitarfélaga, lögaðila og einstaklinga hækkuðu einnig, en flokkurinn tapaði engu að síður 35 milljónum króna á árinu.
Samkvæmt ársreikningi flokksins sem Ríkisendurskoðun hefur birt námu ríkisframlög til flokksins tæpri 181 milljón króna í fyrra, en þau voru tæpar 102 milljónir króna árið 2017. Má rekja þessa hækkun til ákvörðunar í fjárlögum vegna ársins 2018 sem allir stjórnmálaflokkar nema Píratar og Flokkur fólksins studdu. Fjárframlögin árið 2018 voru alls 648 milljónir króna, en voru 286 milljónir króna árið 2017. Var það hækkun upp á 127 prósent.
Einstaklingar styrktu Sjálfstæðisflokkinn um 49 milljónir króna á árinu, hver og einn um 200 þúsund krónur eða minna. Lögaðilar styrktu flokkinn um 22 milljónir króna. Hæstu upphæðir greiddu meðal annars fyrirtæki í sjávarútvegi, lögmannsstofur, byggingarfélög og stærri fyrirtæki eins og Síminn, BL og Tryggingamiðstöðin.
Námu tekjur flokksins alls tæpum 358 milljónum króna en gjöld 373 milljónum króna. Eigið fé flokksins stendur 338 milljónum króna, en skuldir hans nema 431 milljón. Tap flokksins án fjármagnsliða var þannig aðeins 6 milljónir króna í fyrra, en að þeim meðtöldum var tapið 35 milljónir.
Athugasemdir