Skuldir heimilanna hafa hækkað sem hlutfall af ráðstöfunartekjum, í fyrsta sinn frá árinu 2010. Þetta kemur fram í nýju riti Seðlabankans, Fjármálastöðugleika, sem birt var í dag.
Í ritinu kemur fram að þó töluverð óvissa ríki um efnahagshorfur næstu misserin sé von á bjartari tíð á næsta ári. Líklega verði vægur efnahagssamdráttur á þessu ári, en áföll í ferðaþjónustu muni hafa minni áhrif á þjóðarbúskapinn en búist var við. Þá sé ólíklegt að nýleg áföll muni ógna fjármálastöðugleika, að því gefnu að alþjóðlegar efnahagshorfur versni ekki mikið og fjármálafyrirtækin varðveiti viðnámsþrótt sinn.
Samkvæmt ritinu námu skuldir heimilanna 76 prósent af landsframleiðslu í lok júní. Hlutfallið hækkaði um rúma eina prósentu undanfarið ár eftir að hafa nánast staðið í stað frá árinu 2016. Er það rekið til hægari vaxtar landsframleiðslu undanfarið. Þá kemur fram að íbúðaskuldir heimilanna hafi aukist, en aðrar skuldir heimilanna hafi verið greiddar niður á móti.
„Staða heimilanna hefur styrkst verulega á liðnum árum og er mjög góð í sögulegu samhengi,“ segir í ritinu. „Að öðru óbreyttu munu lækkandi skammtímavextir létta greiðslubyrði miðlist þeir út í útlánavexti og draga úr líkum á vanskilum í náinni framtíð. Heimilin ættu því að vera vel undir það búin að takast á við minni vöxt ráðstöfunartekna, sérstaklega ef atvinnuleysi eykst ekki mikið.“
Hins vegar hafa skuldir heimilanna sem hlutfall af ráðstöfunartekjum hækkað milli áranna 2017 og 2018, en þær höfðu lækkað í þeim skilningi stöðugt frá árinu 2010 til 2017, að hluta til vegna aukinna ráðstöfunartekna. „Á fyrstu átta mánuðum ársins var hlutfall óverðtryggðra útlána um 76% af hreinum nýjum lánum heimilanna samanborið við 67% á árinu 2018. Þessi þróun hefur leitt til þess að nú er um fjórðungur af öllum skuldum heimilanna óverðtryggður. Um 40% af nýjum lánum heimilanna voru veitt af lífeyrissjóðunum á fyrstu átta mánuðum ársins sem er nánast sama hlutfall og á sama tíma fyrir ári.“
Athugasemdir