Ég get svo svarið það, ég ræð mér vart fyrir spennu. Í Oxfordskíri á Bretlandi er alþjóðlegur hópur vísindamanna að búa sig undir að reyna að „lesa“ nærri 2.000 samþjappaðar bókrullur sem fundust í húsarústum í hinni niðurgröfnu borg Herculaneum skammt frá miðborg Napólí.
Herculaneum grófst í ösku þegar toppur eldfjallsins Vesúvíusar sprakk í ógurlegu eldgosi árið 79 eftir Krist. Í sama gosi grófst nágrannaborgin Pompeii líka á kaf og báðar borgirnar voru týndar og tröllum gefnar í nærri 1.800 ár.
En ef það tekst nú að lesa bækurnar frá Herculaneum og ef eigandi bókanna reynist hafa verið áhugasamur um menningu og sögu og safnað í hús sitt almennilegum verkum, sem hafa mörg verið glötuð hingað til, þá gætum við mögulega staðið nú á þröskuldi byltingar í þekkingu okkar á fornöldinni.
Vissulega eigum við mikið af heimildum frá fornöld Grikkja og Rómverja.
En það vantar líka mjög mikið.
Tökum sem dæmi grísku harmleikjaskáldin Eskilos, Sófókles og Evripídes sem uppi voru á 5. öld fyrir Krist.
Þeir sköpuðu ekki aðeins leikhúshefð sem enn er við lýði á Vesturlöndum og miklu víðar. Í skáldskaparsögu, menningarsögu og raunar hugmyndasögu heimsins eru þeir þvílíkir risar að áhrifa þeirra gætir um alla okkar menningarkima - miklu víðar en flestir gera sér grein fyrir.
En sannleikurinn er sá að ekki hefur varðveist nema brot af verkum þeirra.
Eskilos skrifaði allt að 90 leikrit en við eigum aðeins sjö þeirra.
Sófókles skrifar 120 leikrit og aftur eigum við bara sjö.
Evripídes skrifaði líklega 95 leikrit, og af þeim hafa varðveist 18.
Hugsið ykkur hvíkur fjársjóður það verður ef eigandi bókasafnsins í Pompeii reynist hafa verið unnandi grískrar harmleikjagerðar og þarna verði læsilegir svo og svo margir „nýir“ grískir harmleikir!
Alveg ekta!
Og kannski reynist bókasafnarinn vera söguáhugamaður líka.
Það væri nú heldur betur fengur að því ef hann reynist til dæmis hafa átt Rómarsögu Livíusar í heilu lagi.
Sagnaritarinn Livíus skrifaði Rómarsögu frá upphafi og fram undir Kristsburð. Aðeins um fjórðungur verksins hefur lifað af hörmungar tímans.
Að vísindalegum vinnubrögðum stenst Livíus auðvitað ekki samanburð við nútíma sagnfræðinga, en eigi að síður væri það stórkostlegur fengur ef glataður hluti ritsins finnst nú.
Og það mætti týna svo ótal margt annað til. Rit um sögu, menningu, verkfræði, vísindi, náttúrufræði, heimspeki, skáldskap, þótt við eigum mikið af þessu frá fornöld, þá vantar svo margt.
Sú rómverska villa, þar sem bókrollurnar fundust, er nálægt sjónum í Herculaneum. Hún fannst um 1750 og meðal þess sem fannst voru haugar af því sem menn töldu upphaflega vera viðarbúta í brenni. En þegar kveikt var í nokkum þeirra reyndist lítill ylur í þeim, þeir molnuðu bara niður.
Seinna uppgötvuðu menn að þetta voru bækur, upprúllaðar bókrollur að hætti fornaldar en brennheit askan, sem helltist yfir Herculaneum, hafði sviðið þær að utan.
Menn reyndu að rúlla bókunum í sundur en þær voru svo stökkar að þær urðu bókstaflega að ösku í höndum manna.
Sem betur fer var þeim þó ekki hent, heldur voru sem sagt nærri 2.000 stykki geymd vandlega og nú eru menn að byrja að gegnumlýsa þær með nýrri tækni og vonast til að geta greint stafina og síðan „rétt úr“ myndunum þannig að textinn verði læsilegur.
Þetta er reyndar mjög einfölduð mynd af mjög flókinni tækni, sem beitt verður í Oxfordskíri.
En hvað sem því líður:
Þetta verður spennandi. Villan var nefnilega mjög ríkmannleg og því má gera ráð fyrir að eigandi hennar hafi ekki safnað eintómum reyfurum í bókasafn sitt - þótt vissulega væri svo sem ekki lítill fengur að rómverskum reyfurum!
Margir telja að um eitt skeið hafi Calpurnius Piso, tengdafaðir Júlíusar Caesars, átt þessa villu.
Bandaríkjamaðurinn Brent Scales stjórnar þeim hópi vísindamanna sem rýnir nú í rollurnar og í samtali við The Times í dag kveðst búast við að fyrstu niðurstöður liggi fyrir innan árs.
Þá kemur í ljós hvort hægt verður að lesa rollurnar, og hvaða verk leynist þarna.
Kannski týnd guðspjöll? Árið 79 hafði hinn litli söfnuður kristinna manna náð til Ítalíu og einmitt um þær mundir voru fyrstu guðspjallamennirnir að verki. Kannski forvitnir rómverskir bókasafnarar hafi verið búnir að næla sér í eintak af einhverjum þeim fyrstu?
Athugasemdir