Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, segist ekki taka undir orð Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, nýs dómsmálaráðherra, um að það sé „mjög ánægjulegt“ að yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu fjalli um Landsréttarmálið.
Mannréttindadómstóllinn dæmdi í mars að ríkið hefði brotið gegn 6. grein Mannréttindasáttmála Evrópu vegna skipunar dómara við Landsrétt. Sigríður Andersen sagði af sér sem dómsmálaráðherra í kjölfarið, en stjórnvöld áfrýjuðu til yfirdeildar dómstólsins. Fjórir dómarar við réttinn taka ekki þátt í störfum hans vegna málsins. Tilkynnt var um það í gær að yfirdeild Mannréttindadómstólsins muni taka málið fyrir.
„Þetta er mjög ánægjulegt,“ sagði Áslaug Arna við RÚV í gær. „Það auðvitað fylgir aðild okkar að við getum óskað eftir endurskoðun. Það er jákvætt að það sé tekið fyrir og metið öðru sinni.“
Rósa Björk gerði ummæli Áslaugar að umtalsefni á Twitter í gær. „Alls ekki sammála nýjum dómsmálaráðherra að það sé “mjög ánægjulegt” að yfirdeild MDE taki fyrir Landsréttarmálið. Það er ekki “mjög ánægjulegt” að hér ríki áframhaldandi óvissa í dómskerfinu + 4 dómarar séu í leyfi v. málsins og Landsréttur óstarfhæfur!“
Athugasemdir