„Það er alveg magnað með Sjálfstæðisflokkinn að þetta sé flokkurinn sem tali fyrir ábyrgð einstaklings. Auka skal kostnaðarvitund hjá sjúklingum, umhverfisváin er eitthvað sem á að leysa með því að versla hluti eins bambustannbursta en þegar kemur að bílnum er talað fyrir gríðarlegum sósíalisma.“
Þetta sagði Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, þegar rætt var um tillögu Sjálfstæðismanna um snjallvæðingu í umferðar- og ljósastýringu á borgarstjórnarfundi í dag. Hún sagði að slík áætlun væri þegar á dagskrá í borginni að frumkvæði meirihlutans og gert væri ráð fyrir fjármunum til innleiðingar snjalltækni í samgöngum í fjarhagsáætlun 2019.
Dóra sagði Sjálfstæðismenn töluðu aldrei fyrir persónulegri ábyrgð og einstaklingsbundnum lausnum í umræðu um einkabílinn. „Þá á hið opinbera alltaf að redda málunum,“ sagði hún. „Grimm einstaklingshyggja og Darwinismi fyrir sjúklinga en dúnmjúkur velferðarsósíalismi fyrir einkabílinn. Mislæg gatnamót hér, slaufu þar, jarðgöng og hraðbrautir sama hvað þær kosta fyrir einkabílinn og ef einhver vogar sér að leggja til skynsemi í fjármálum þar þá er slíkt stríðsyfirlýsing gegn fjölskyldum í borginni.“
Eyþór Arnalds gaf lítið fyrir málflutning Dóru og sagði ræðuna hennar aðhlátursefni.
Athugasemdir