Í grein sem Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur og þingmaður Samfylkingarinnar birtir í Fréttablaðinu 22. ágúst síðastliðinn, „Öfgamaður á ferð“ ræðir hann komu Mike Pence varaforseta Bandaríkjanna, veru okkar í Nató og það hvort við viljum fá her Bandaríkjanna aftur. Sem áhugamanneskju um réttlæti í alþjóðlegu samhengi langar mig að bregðast við greininni og segja nokkur orð, sérstaklega um þátttöku Íslands í hernaðarbandalaginu Nató.
Við verðum vitni að öfgafullri grimmd nútímans hvert sem við lítum. Við sjáum hana í hinni ótrúlegu stéttskiptingu sem opinberast allt í kringum okkar, þar sem fámennur hópur fólks sölsar undir sig allt sem þeim sýnist; auð, jarðir, sjálft lífríkið eins og það leggur sig, með þeim hræðilegu afleiðingum sem nú hljóta öllum að vera ljósar. Grimmd nútímans opinberast í forseta Bandaríkjanna, skilgetnu afkvæmi hömluleysis kapítalismans, afkvæmi þeirrar sjúku dýrkunnar á ríkidæmi og völdum sem hefur fyrir löngu tekið yfir allan bandarískan veruleika með skelfilegum fórnarkostnaði fyrir vinnandi fólk og alla þá sem dæmdir eru til að hírast á botni stigveldisins, afkvæmi mannhaturs nýfrjálshyggjunnar sem útbjó það úrkynjaða samfélagslega ástand sem gerði kosningu hans mögulega. Grimmd nútímans opinberast í „alþjóðlegu samstarfi“; fríverslunarsamningum þar sem alþjóðleg stórfyrirtæki fá öll völd á kostnað alþýðu veraldarinnar, yfirþjóðlegum stofnunum sem taka ákvarðanir um efnahagslegar tilraunir á heilum samfélögum í þeim tilgangi að tryggja m.a. að eigendur kapítalsins þurfi ekki að axla ábyrgð á eigin gjörðum, og öfgafull grimmd nútímans opinberast í hernaðarbandalaginu Nató. Það er einfaldlega staðreynd sem allt skynsamt fólk hlýtur að viðurkenna.
„Já, þátttaka okkar í Nató
þýðir nákvæmlega þetta“
Í stað þess að spyrja eins og Guðmundur Andri gerir, hvort að aðild okkar að Nató og þáttaka í alþjóðlegu samstarfi um varnir þurfi sjálfkrafa að tákna veru bandarísks herliðs á Íslandi er spurningin sem ég vil spyrja, spurningin sem ég tel hina réttu spurningu, þessi: Þarf þátttaka okkar að Nató sjálfkrafa að þýða að stjórnmálastétt okkar taki hvað eftir annað ákvarðanir um að fjármagna og styðja blóðsúthellingar á saklausu fólki, ákvarðanir byggðar á lygum og fölsunum? Og við þessari spurningu er aðeins eitt rétt svar: Já, þátttaka okkar í Nató þýðir nákvæmlega þetta. Hún þýðir að öll þau sem fá tækifæri til að koma að stjórn landsins taka ákvörðun um að kasta öllum hugmyndum um réttlæti og friðsemd í alþjóðlegum samskiptum út í hafsauga, sama hvað þau hafa áður sagt og skrifað, taka ákvörðun um að fela sig á bak við „real-pólitík“ og „skynsemi“, og einnig á bak við einstaklega óljóst tal um alþjóðasamstarf, sem aldrei er tekinn tími í að útskýra nákvæmlega hvað inniheldur; í frasanum „alþjóðlegt samstarf um varnir“ er falinn sá sannleikur sem aldrei má tala um upphátt, afleiðingar samstarfsins: dauði fjölda kvenna, barna og manna, ónýt samfélög, og þær skelfilegu aðstæður sem bíða fólks á flótta.
Mér finnst það til marks um undarlega veraldarsýn að telja það mikilvægt að Ísland verði áfram herlaust land en hafa ekki svo mikið sem minnstu efasemdir um að Ísland sé meðlimur Nató. Það er einfaldlega hræsni að vilja ekki að landið okkar verði aftur óhreinkað með veru bandarísks herliðs en hafa engar athugasemdir við hernaðarbandalag sem ber ábyrgð á ógeðslegum glæpum gagnvart saklausu fólki. Krafan getur ekki bara verið sú að Ísland fái að vera herlaust land. Krafan hlýtur að vera sú að Ísland hætti að taka þátt í blóðsúthellingum innrása og árása, hætti að fela sig á bak við innantómt tal um friðsemd á meðan íslensk valdastétt er ávallt fús til þess að stilla sér upp með útsendurum ofbeldis á alþjóðavettvangi, aldrei raunverulegur boðberi friðar, ávallt boðberi ófriðar. Það er ekki boðlegt árið 2019, eftir allt sem gengið hefur á, alla þá stríðsglæpi sem framdir hafa verið, að horfast ekki í augu við alvarleika stöðunnar á alþjóðavettvangi, stöðu sem er augljóslega ekki síst orsökuð af grimmd og blóðþorsta óstöðvandi og firrtrar hernaðarhyggju vesturveldanna og Nató.
Ég trúi því ekki að „við séum öll sek“ um það sem er gert í nafni þess þjóðríkis sem við búum í. Ég ber ekki ábyrgð á hörmungum sem eru orsakir innrása og stríðsglæpa sem valdafólk hverju sinni ákveður að styðja í nafni alþjóðlegrar samvinnu. Ég ber ekki ábyrgð á því að Ísland tók þátt í stríðsglæpnum sem aðgerðirnar í Líbýu voru, þrátt fyrir að ég hafi sannarlega kosið annan af flokkunum sem þá voru við völd, kosið hann í góðri trú árum saman sökum þess að ég trúði því þegar stjórnmálafólkið í honum sagðist vera friðarsinnar, trúði því að flokkurinn væri friðar-flokkur. En ég get tekið ábyrgð á því og mér í raun ber til þess skylda til sem manneskju sem hefur innilegan áhuga á réttlæti á alþjóðavettvangi, að krefjast þess að rætt sé um alþjóðamál og hverra hagsmuna við, með þátttöku okkar í Nató, tökum markvissan þátt í að gæta og viðhalda. Ég get og vil axla ábyrgð á því að krefjast þess að um svo grafalvarleg mál sé rætt af alvöru og þroska. Ég get og vil axla ábyrgð á því að innantómt tal um „alþjóðlega samvinnu“ sé ekki lengur í boði á stóra sviði umræðunnar.
Þessvegna spyr ég:
Hversu mikið ofbeldi er hægt að samþykkja sem ásættanlegan kostnað fyrir „varnir“? Hveru mikið „collateral damage“ er hægt að ákveða að sé eðlilegt fyrir alþýðu annara landa, saklaust fólk, að greiða fyrir þjónkun Íslands við hagsmunagæslu stórvelda? Það er ekkert „frjálslyndi“ fólgið í því að samþykkja að gera öðrum að greiða fórnarkostnaðinn, þvert á móti er það gróf afturhaldssemi, afturhaldsemi byggð á aldagömlu módeli um yfirburði hinna „siðmenntuðu“, rétt hinna „siðmenntuðu“ til að grípa til hvaða ráða sem er til að koma vilja sínum fram við þau sem ekki erum „við“. Svokallaðar „íhlutanir“ síðnýlendustefnunnar, faldar á bak við annars vegar þvaður byggt á lygum um varnir og hins vegar þvaður um að ofbeldið sé í raun innleiðing frelsis og jafnréttis, að sprengjurnar og pyntifangelsins og morðin á saklausum borgurum séu göfug frelsunarverkefni, að mannfall óbreyttra borgara sé ásættanlegur fórnarkostnaður veraldar nýrrar og góðrar, að á endanum muni allt brúna fólkið þakka okkur kærlega fyrir frelsunina, eru hver skelfilegur stríðglæpurinn á fætur öðrum. Það að alþjóðasamfélagið og alþjóðastofnanir hafi ekki látið hinu seku svara til saka fyrir stríðsglæpadómstólum; Bush, Blair, Sarkozy, Cameron, og alla siðvillingana og alla heiglana og alla realpolitik-pólitíkusana sem hlýða skipununum, er ekki vegna þess að þeir séu ekki sekir, heldur einungis til marks um spillingu hins svokallaða alþjóðasamfélagsins. Hversu mikinn kostnað finnst okkur eðlilegt að leggja á annað fólk, valdalaust, saklaust fólk sem hefur ekkert til saka unnið, svo að „alþjóðasamstarfið“ haldi áfram að lifa góðu lífi? Hversu gagnrýnislaus erum við tilbúin til að vera vegna þess að við getum ekki hugsað okkur af hrófla við þeirri utanríkispólitík sem fylgt hefur verið á Íslandi, smíðari af kaldlyndi, innleiddri af hörku og viðhaldið af öllum þeim sem komast til valda?
Ef við ætlum í raun og veru að berjast gegn þeirri hörmulegu blöndu af þjóðernishyggju, mannhatri, kynþáttahatri og auðræði sem útsendari Donald Trump, Mike Pence boðar, dugar ekki enn meira af þeirri sjálfsupphafningu sem íslensk stjórnmálastétt hefur hingað til komist upp með, þar sem hún lætur eins og hún sé málsvari friðar og mannréttinda á alheimsvísu, á meðan hún skrifar upp á hvert herkallið á fætur öðru, algjörlega sjálfviljug og full eldmóðs í þjónkun sinni við öfgafulla forherðingu valdasjúks fólks. Fólk sem vill láta taka sig alvarlega þegar kemur að því að ræða vandamálin sem við stöndum frammi fyrir á veraldarvísu, vandamál tilkomin vegna óhefts arðráns á manneskjum og lífríki, hernaðarhyggju og óbærilegs brútalisma hins alþjóðlega stigveldis, getur ekki lengur falið sig á bak við óljóst tal um „alþjóðlegt samstarf“ og „varnir“. Aðeins með því að horfast í augu við stöðuna eins og hún er, með því að viðurkenna hverjar orsakirnar eru og hvaða afleiðingar þær hafa leitt yfir fólk og samfélög, eigum við einhverja möguleika á að snúa af þeirri braut hörmunga sem hömlulaus og firrt alþjóðleg valdastétt hefur teymt okkur eftir. Tvískinnungur og einfeldni eru ekki lengur í boði. Það hlýtur öllum að vera augljóst.
Athugasemdir