Jóhann Pétur Reyndal, stjórnarformaður tískuvörumerkjanna Oasis, Warehouse og Karen Millen, var með hæstu mánaðarlaun Seltirninga í fyrra, 14 milljónir króna. Eru félögin öll í eigu þrotabús Kaupþings, þar sem Jóhann sinnir eignastýringu. Var hann með næsthæstar heildarárstekjur í sveitarfélaginu með 173 milljónir, en aðeins lítill hluti tekna hans voru fjármagnstekjur. Þetta kemur fram í álagningaskrá ríkisskattstjóra.
Fjármagnstekjur, þ.e. vaxtatekjur, arður, söluhagnaður og leigutekjur utan rekstrar, voru stærsta tekjulind þeirra tíu tekjuhæstu á Seltjarnarnesi. Námu þær í heild 1,3 milljörðum króna hjá þessum tíu aðilum. Tekjuhæstur var hins vegar Guðni Þórðarson, hinn áttræði stofnandi og framkvæmdastjóri Borgarplasts, sem seldi hlut sinn í fyrirtækinu í fyrra til fjárfestinasjóðsins Alfa framtaks. Numu fjármagnstekjur hans í fyrra 675 milljónum króna, en mánaðarlegar tekjur hans voru þar að auki 1,7 milljón króna. Sjöfn Guðmundsdóttir, kona Guðna og fyrrum hluthafi í Borgarplasti, er númer fimm á listanum með tæpar 112 milljónir í árstekjum, að líkindum mestmegnis vegna sölunnar.
Nafn | Heildarárstekjur |
---|---|
Guðni Þórðarson | 695.789.501 |
Jóhann Pétur Reyndal | 173.027.979 |
Ingibjörg S Ásgeirsdóttir | 165.927.348 |
Arnar Scheving Thorsteinsson | 117.355.815 |
Sjöfn Guðmundsdóttir | 111.713.103 |
Ragnheiður Lára Jónsdóttir | 103.494.493 |
Ásbjörn Jónsson | 98.749.998 |
Elmar Johnson | 91.769.236 |
Róbert Vinsent Tómasson | 91.612.496 |
Baldvin Valtýsson | 91.246.950 |
Helgi Magnússon | 89.843.717 |
Þriðja á listanum er Ingibjörg Svava Ásgeirsdóttir, iðjuþjálfi og áður lektor við heilbrigðisdeild Háskólans á Akureyri. Launatekjur hennar námu aðeins 14 þúsund krónum á mánuði, en fjármagnstekjur 166 milljónum króna á árinu. Faðir hennar var Ásgeir Ásgeirsson lyfsali, sem var framkvæmdastjóri Pharmacho hf., sem seinna varð að Actavis.
Sá fjórði er annar starfsmaður þrotabús Kaupþings, Arnar Scheving Thorsteinsson. Námu launatekjur hans 9,6 milljónum króna á mánuði og heildarárstekjur 117 milljónum króna. Ragnheiður Lára Jónsdóttir er í sjötta sæti listans, en fjármagnstekjur hennar námu 102 milljónum króna á árinu. Eiginmaður hennar, Karl Harðarson, forstjóri ThorShip, lést á síðasta ári.
Ásbjörn Jónsson, framkvæmdastjóri Fiskkaupa og fleiri félaga í sjávarútvegi, kemur þar á eftir með rúmar 2,9 milljónir króna í mánaðarlaun. Auk þess námu fjármagnstekjur hans á árinu tæpum 64 milljónum króna. Elmar Johnson, læknir og einn af stofnendum ferðaþjónustunnar Guide to Iceland, fékk 80 milljónir króna í fjármagnstekjur í fyrra, auk tæprar milljónar á mánuði í launatekjur.
Róbert Vinsent Tómasson, framkvæmdastjóri Cargo Express, fyrirtækis sem sérhæfir sig í loftflutningum, er í níunda sæti listans. Loks er Baldvin Valtýsson, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans í London og eigandi ráðgjafafyrirtækisins Akrar Consult, sá tíundi tekjuhæsti.
Athugasemdir