Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Viljans, var með tæpar 2,9 milljónir króna á mánuði í laun samkvæmt álagningarskrá ríkisskattstjóra. Hafa mánaðarlaun hans hækkað frá 2017 þegar þau voru 2,5 milljónir króna, en þá rak Björn Ingi fjölmiðla Vefpressunnar.
Björn Ingi stofnaði Viljann í nóvember á síðasta ári og því ólíklegt að tekjur hans hafi að mestu komið frá því starfi. Var hann alls með 34,3 milljónir króna í árslaun í fyrra. Á tímabili átti hann félagið BOS ehf. sem rak Argentínu steikhús. Hefur það síðan verið tekið til gjaldþrotaskipta.
Síðasta ár var stormasamt hjá Birni Inga. Hann var grunaður um brot vegna bókhalds og skattskila á árunum 2014 til 2017 og kyrrsetti tollstjóri nær 115 milljónir króna af eignum hans vegna málsins. Skattrannsóknarstjóri lauk rannsókninni í byrjun árs 2019 og taldi ekki tilefni til að aðhafast frekar í málinu. „En allt er gott sem endar vel,“ skrifaði Björn Ingi á Facebook þegar málinu var lokið. „Dag er farið að lengja og landið er að rísa.“
Þá greindi eiginkona Björns Inga, Kolfinna Von Arnardóttir, frá því í byrjun árs í færslu á Facebook að Aron Einar Gunnarsson knattspyrnumaður hafi farið fram á persónulegt gjaldþrot hennar. Deilur hafa staðið á milli þeirra vegna fjárfestingar í fatamerkinu JÖR.
Nú síðast krafði Ríkisskattstjóri Björn Inga um tæpar 8 milljónir króna samkvæmt gerðarbók fjárnáms hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu þann 12. júní. Gert var fjárnám í fjórum eignum Björns Inga að Másstöðum í Hvalfirði.
Athugasemdir