Orkan okkar, samtök sem berjast gegn innleiðingu þriðja orkupakkans, hafa undanfarna daga dreift óhróðri um héraðsdómara þar sem hann er ranglega sakaður um lögbrot.
Í færslu Þórarins Einarssonar, sem samtökin birta, er fullyrt að Skúli Magnússon, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, hafi unnið „ólöglega álitsgerð“ fyrir utanríkisráðuneytið til að gefa innleiðingu orkupakkans heilbrigðisvottorð.
„Það er nefnilega vert að benda á að Skúli hafði ekki leyfi fyrir þessu aukastarfi sínu frá nefnd um dómarastörf sem er brot á reglum nefndarinnar samkvæmt lögum um dómstóla,“ skrifar Þórarinn.
Stundin hafði samband við Hjördísi Hákonardóttur, formann nefndar um dómarastörf.
„Skúli Magnússon fékk heimild nefndar um dómarastörf til að vinna álit fyrir utanríkisráðuneytið um afmarkaða spurningu sem tengdist þriðja orkupakkanum, og tilkynnti nefndinni jafnframt þegar því var lokið,“ segir hún.
Bendir Hjördís á að aukastörf eru fjarlægð af hinni opnu skrá yfir aukastörf dómara á vef dómstólanna þegar verki er lokið eða dómari hættir að sinna því.
Uppfært:
Þórarinn Einarsson hefur beðist afsökunar á rangfærslunni og pistillinn hans sem dreift var í nafni Orkunnar okkar hefur verið lagfærður. Segist Þórarinn hafa byggt fullyrðingu sína á skránni yfir aukastörf dómara en ekki vitað að listinn hefði einungis að geyma yfirlit yfir yfirstandandi aukastörf.
Athugasemdir