Deilurnar um virkjun Hvalár með risastórum uppistöðulónum á ósnortnu landi fara vaxandi. Stöðugt fleiri gera sér grein fyrir því að fórnin gagnvart náttúrunni er gríðarleg og óafturkræf en ávinningurinn fyrir heimamenn í Árneshreppi er enginn. Til lengri tíma litið stendur skaðinn einn eftir.
Því er haldið á lofti að virkjun Vesturverks, sé í þágu heimamanna í Árneshreppi. Í loftinu liggur að vegabætur muni eiga sér stað og ljósleiðari komi auk þess að þriggja fasa rafmagn liðist um allar sveitir. Svo ætla þeir að mála skólann. Aðstandendur Vesturverks, sem er í eigu HS-orku og stjórnað frá Suðurnesjum, láta í veðri vaka að þessi góðverk séu á forræði þeirra sem er í besta falli ósatt. Virkjunin mun hvorki færa Árneshreppi birtu né yl. Rafmagnið fer einfaldlega yfir Ófeigsfjarðarheiði og inn á landsnetið og áfram til þeirra sem hæst vilja greiða. Línan yfir heiðina verður á kostnað almennings.
Aðalleikarar í virkjanamálinu eru allir aðkomumenn. Eigandi að stærstum hluta Ófeigsfjarðar og einn helsti talsmaður virkjunar er Pétur Guðmundsson, Kópavogsbúi sem kemur og fer í Árneshrepp um sama leyti og lóan. Hann er með lögheimili nyrðra. En til að öllu sé haldið til haga þá lýsti hann sig lengst af vera andstæðing stóriðju og vildi að sú hönd visnaði sem stæði að slíku. Nú er hann að leggja landið, sem hann hefur reyndar ekki nýtt, undir virkjun sem verður meðal annars rekin í þágu stóriðju og rafmyntar Eigendur virkjunarinnar eru að stærstum hluta HS-orka í Reykjanesbæ sem á fyrirtækið Vesturverk að stærstum hluta. HS-orka er að mestu leyti í eigu breskra og íslenskra lífeyrissjóða. Í Reykjanesbæ er að finna hið alræmda fyrirtæki United Silicon. Vesturverk er með sitt lögheimili í Ísafjarðarbæ. Þetta er sérlega áhugavert í því ljósi að aðkomumennirnir í Árneshreppi hamra á því að fólkið sem vill vernda náttúruna sé aðkomufólk “á skítugum skóm” sem komi ekki við hvort virkjað verður eða ekki. Tómas Guðbjartsson, hjartalæknir og náttúruverndarsinni, hefur orðið fyrir illmælgi og grófu aðkasti frá þessu fólki fyrir baráttu sína fyrir heilbrigði náttúrunnar. Meira að segja hefur verið veist að heimamönnum fyrir að styðja ekki virkjun og einhverjum var sagt að hypja sig á brott af svæðinu.
Þær hugmyndir eiga nokkuð fylgi að með því að fórna Ófeigsfjarðarheiði og fossunum í Eyvindarfjarðará og Ófeigsfirði megi tryggja afhendingaöryggi á rafmagni fyrir Vestfirðinga. Þessi skoðun hefur skotið rótum á Vestfjörðum. Skyndilega má heyra þær raddir að “Vestfirðingar” verði að standa með Árneshreppi. Sem gamall Vestfirðingur fullyrði ég að þetta er hræsni. Engin tenging er á milli virkjunarinnar og dreifikerfisins á Vestfjörðum. Það er sjálfstætt og sjálfsagt mál að lagfæra dreifikerfið á Vestfjörðum. Til þess þarf ekki náttúruspjöll í Árneshreppi. Hingað til hafa Vestfirðingar ekki haft áhyggjur af Árneshreppi eða fundið til samhugs með þessu svæði sem áratugum saman hefur barist við mannfækkun og er nú á hengiflugi þess að vetrarbúseta leggist af. Málflutningur Vestfirðinga er í besta falli hræsni en þó líklega afleiðing af áróðri þess auðvalds sem vill heiðina og fossana feiga og skeytir í engu um mannlífið í Árneshreppi.
Ítalskur barón, Felix Von Longo-Liebenstein er sá sem gerði samning við Vesturverk um vatnsréttindin við Eyvindarfjarðarvatn og þar með að þurrka þá gullfallegu Eyvindarfjarðará upp að mestu. Baróninn keypti jörðina Engjanes fyrir 25 milljónir króna á sínum tíma undir þeim formerkjun að hann hefði fest ást á firðinum. Haft er eftir honum að hann ætlaði að byggja sér hús á þessum fagra stað. Í einni ferðinni í Eyvindarfjörð lenti hann í slagviðri og missti áhugann á fegurðinni. Næsta sem heyrist er að hann er búinn að leigja frá sér vatnsréttindin og þar með að eyðileggja fegurðina. Uppreiknaðir fjárhagslegir hagsmunir landeigandans í Ófeigsfirði eru gífurlegir verði virkjunin að veruleika. Longo-Libenstein fær svo sitt líka fyrir að fórna Eyvindarfjarðará þótt reyndar sé grunur um að hann hafi selt það sem hann átti ekki. Þetta er lykilatriði í öllu málinu. Þessir munu græða en landinu blæða. Aðrir munu aðeins fá brauðmola af gnægtarborði auðvaldsins á meðan á fyrirhuguðum framkvæmdum stendur. Síðan tekur við þögnin sem aðeins verður rofin af malinu í túrbúnínum í Strandarfjöllum sem nærast á blóði náttúrunnar.
Undirritaður hefur farið gangandi um þær slóðir sem munu verða fyrir alvarlegum skemmdum og sumpart eyðileggingu ef til virkjunar kemur. Aðstandendur virkjunarinnar og sumir landeigenda hafa haldið því fram að svæðið sé ljótt og ekkert geri til að sökkva því. Þetta er eins rangt og hugsast getur. Fegurðin ræðst ekki aðeins af grasi og gróðri. Samspil vatna, fossa, jökuls og fjalla er undrafagurt. Fossarnir sem skerðast eru margir á meðal þeirra fegurstu á landinu. Drynjandi, Rjúkandi og Greifafoss eru öllum þeim sem þá sjá ógleymanlegir. Vötnin á heiðinni sem sökkt verður eru enn undrafögur. Vatnalautarvötnin, Hvalárvötnin og Eyvindarfjarðarvötnin eru öll í skotlínu Suðurnesjamanna og Ísfirðinga og verða kaffærð, nái áformin fram að ganga. Risastór lón munu taka við af fjölbreytninni. Allt tal um ljótt land er innihaldslaust. Við getum allt eins sagt að Kaldidalur sé svo ljótur að honum beri að sökkva. Gullið er allt eins í grjótinu. Ég get staðfest að fátt er fegurra en náttúran á Ströndum og það yrði illvirki að sökkva landinu og þurrka upp fossana.
Enn hefur ekki verið ákveðið að leyfa virkjun. Sveitarstjórnin í Árneshreppi hefur samþykkt breytingar á aðalskipulagi til að aðkomumennirnir frá Ísafirði og Suðurnesjum megi rista vegi við Hvalá á forsendum nauðsynlegra rannsókna. Sumir segja að ekki verði til baka snúið og virkjunin verði að rísa. Innan sveitarstjórnar eru þær skoðanir uppi að það beri að virkja. Oddvitinn hefur sagt að virkjunin og lónin sjáist ekki frá veginum og þess vegna í lagi að fara í verkefnið. Framvindan virðist geta ráðist af þeim fimm sem sitja í sveitarstjórn. Raunverulegur fjöldi í Árneshreppi er í kringum 16 manns ef litið er til heilsársbúsetu. Allt sómafólk. Við síðustu kosningar voru 50 manns á kjörskrá í Árneshreppi en 40 manns eiga nú lögheimili á svæðinu sem þýðir að rúmur helmingur er með falskt lögheimili og fer með meirihluta í málefnum hreppsins. Það er engan veginn eðlilegt að þessi hópur fari með það vald að geta fórnað einu stærsta víðerni landsins á svo vafasömum forsendum.
Perlurnar á Ströndum eiga að njóta verndar allrar þjóðarinnar. Það verður að teljast eðlilegt að varðstaðan um náttúruna komi til kasta allra Íslendinga. Evindarfjarðarheiðin og Ófeigsfjarðarheiðin er ekki einkamál þeirra landeigenda sem við höfum falið að gæta landsins og skila til komandi kynslóða. Ef Alþingi stöðvar ekki skemmdarverkið verður það að koma til kasta þjóðarinnar allrar að vega og meta kostina og ókostina við þessa framkvæmd. Valdið má ekki vera á svo vafasömum grunni sem nú reynist vera. Þjóðaratkvæðagreiðsla er svarið við því þrátefli sem nú stendur. Niðurstaðan gæti orðið grundvöllur að sátt. Verði virkjun hafnað verður lag til að styrkja byggðina í Árneshreppi með raunverulegum og heilbrigðum hætti. Ef þjóðin fellst á fórnina er rétt að una þeirri niðurstöðu í auðmýkt og hætta andófi.
Höfundur er með lögheimili í Reykjanesbæ en hefur starfað í Árneshreppi undanfarin sumur.
Athugasemdir