Arnar Þór Jónsson héraðsdómari segir að það yrði „trúnaðarbrestur við komandi kynslóðir“ ef Alþingi ákvæði að samþykkja innleiðingu þriðja orkupakkans í íslenskan rétt. Þingmenn sýni „heigulshátt“ í málinu.
Þetta fullyrðir Arnar á Facebook-síðu sinni í dag þar sem hann bregst við grein sem Bjarni Már Magnússon, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, skrifaði í Fréttablaðið í morgun.
Dómarinn hefur blandað sér með afgerandi hætti í umræðuna um þriðja orkupakkann undanfarna mánuði og tekið eindregna afstöðu gegn innleiðingu hans. „EES-samningurinn er til fyrir Íslendinga en ekki Íslendingar fyrir EES-samninginn,“ sagði hann í viðtali á Stöð 2 á dögunum.
Óvenjulegt er að dómarar blandi sér með jafn áberandi hætti í pólitísk deilumál. Lögfræðingar sem Stundin hefur rætt við benda á að Arnar Þór kunni með framgöngu sinni að hafa gert sig vanhæfan til að dæma í málum er varða EES-skuldbindingar Íslands.
Í siðareglum dómara sem samþykktar voru á aðalfundi Dómarafélags Íslands þann 24. nóvember 2017 kemur fram að dómurum beri að hegða sér þannig að sem minnstar líkur séu á að þeir verði að víkja sæti í dómsmáli vegna vanhæfis.
Þá skuli þeir forðast orð og athafnir sem geti orðið til þess að óhlutdrægni þeirra verði dregin í efa.
„Sú ábyrgð sem fylgir starfi dómara takmarkar að einhverju marki frelsi þeirra til samfélagslegrar þátttöku og tjáningar“

„Sú ábyrgð sem fylgir starfi dómara takmarkar að einhverju marki frelsi þeirra til samfélagslegrar þátttöku og tjáningar og gerir ríkari kröfur til háttsemi en almennt eru gerðar til annarra,“ segir í 4. gr. siðareglnanna. „Dómarar skulu því ávallt gæta varkárni í opinberri umfjöllun, þar á meðal á samfélagsmiðlum, um umdeild eða viðkvæm málefni. Þá skulu dómarar gæta að því að virk þátttaka í stjórnmálabaráttu á opinberum vettvangi er ósamrýmanleg starfi dómara.“
Fyrr í sumar kvað Hæstiréttur upp dóm þar sem fundið er að þátttöku Davíðs Þórs Björgvinssonar landsréttardómara í almennri þjóðmálaumræðu um niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu.
„Þó svo að ummæli þessi hafi að nokkru verið viðhöfð á fræðilegum vettvangi er slík þátttaka dómara í almennri umræðu að sönnu óvenjuleg og getur orkað tvímælis hvort hún sé samrýmanleg starfi hans,“ segir í niðurstöðu Landsréttar.
Athugasemdir