James Ratcliffe, þriðji ríkasti maður Bretlands að mati The Sunday Times og landeigandi á Norðausturlandi, hefur spurst fyrir um kaup á knattspyrnuliðinu sögufræga Manchester United.
Ratcliffe hefur verið stuðningsmaður liðsins frá æsku að eigin sögn, en hann hefur áður sóst eftir að kaupa liðið Chelsea af rússneska auðkýfingnum Roman Abramovich. Að því fram kemur á íþróttavefnum utdreport er verðið sem Glazer fjölskyldan, núverandi eigendur Manchester United, vill fá fyrir liðið of hátt að mati Ratcliffe.
Ratcliffe á fyrir knattspyrnuliðið FC Lausanne-Sport í Sviss. Hann er eigandi efnaframleiðslurisans Ineos, en fyrirtækið flutti tímabundið höfuðstöðvar sínar til bæjarins Rolle í Sviss til að spara sér skattgreiðslur.
Hann hefur sjálfur haft áform um að flytja lögheimili sitt til Mónakó til þess að sleppa við 4 milljarða punda í skattgreiðslur. Fjöldi breskra þingmanna hefur gagnrýnt Ratcliffe fyrir að vilja sleppa við greiðslur, enda hafi hann sem forstjóri Ineos beitt sér gagnvart stjórnvöldum fyrir lægri umhverfissköttum og veikari reglugerðum þegar kemur að gasvinnslu með vökvabroti (e. fracking).
Með kaupum Ratcliffe á jörðum og vatnsréttindum á Norðausturlandi er talið að hann og viðskiptafélagar hans eigi nú um 1 prósent alls landsvæðis Íslands.
Athugasemdir