„Meginvandinn við að koma í veg fyrir kreppur hefur verið leystur,“ sagði Robert Lucas í forsetaávarpi sínu hjá Félagi bandarískra hagfræðinga árið 2003.
Eitt af því sem villti stefnumótendum sýn í aðdraganda alþjóðlega fjármálahrunsins var ofurtrúin á haglíkön, tálsýn um óskeikula fjármálamarkaði sem leiðrétta sig sjálfir. Hagfræðin þjónaði fjármálaöflunum sem áróður fyrir afskiptaleysi og hreinum markaðsbúskap og kennisetningar nýfrjálshyggjunnar voru dulbúnar sem vísindi, fræðilegar ályktanir byggðar á hlutlægum sannindum um gangverk efnahagslífsins frekar en pólitískri hugmyndafræði.
„Hagfræðingar lokuðu beinlínis augunum fyrir þeim möguleika að markaðskerfið gæti brugðist með hamfarakenndum afleiðingum,“ sagði Paul Krugman í þekktri grein skömmu eftir hrun þar sem hann reynir að svara því hvernig hagfræðingar gátu haft jafn rangt fyrir sér á bóluárunum og raun ber vitni.
Hagfræðingar sváfu á verðinum, segir Krugman, af því þeir blinduðust af fögrum stærðfræðilíkönum, draumórum um hagkerfi þar sem skynsamir einstaklingar eiga samneyti á skilvirkum mörkuðum á grundvelli fullkominna upplýsinga. Þeir gleymdu því að líkön eru bara líkön og raunveruleikinn svo miklu flóknari.
Eftir hrun hefur talsvert verið ritað og rætt um hætturnar sem felast í þessu.
Til að hagfræðin þjóni samfélaginu sem best þurfa hagfræðingar að vera á varðbergi gagnvart kreddum og meðvitaðir um takmarkanir fræðigreinarinnar.
Hagfræðin er ekki raunvísindi; hagfræðirannsóknir hafa takmarkað forspárgildi og hagfræðikenningar eru illprófanlegar. Um þetta hefur orðið æ ríkari meðvitund meðal fræðimanna frá fjármálahruninu 2008.
Prestur?
Á dögunum skipaði forsætisráðherra nýjan seðlabankastjóra. Fyrir valinu varð Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði og fyrrverandi forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings, sem undanfarin ár hefur starfað sem forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands.
Skipunin hefur vakið athygli. Lobbýistar atvinnurekenda og fólk úr fjármálageiranum fagna henni ákaft –„besti dagur lífs míns,“ segir til dæmis fjármálastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og fyrrverandi forstöðumaður verðbréfamiðlunar hjá Virðingu – meðan villta vinstrið lýsir Ásgeiri sem „dogmatískum og trúheitum nýfrjálshyggjupresti“.
Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor brást við umræðunni á Facebook:
Í framhaldi af skipun nýs seðlabankastjóra hafa einstöku álitsgjafar lýst honum sem fulltrúa „gamallar hagfræði“. Þessir álitsgjafar virðast telja að til sé „ný hagfræði“ sem byggi á einhverjum öðrum fræðilegum grunni en hin „gamla“. Líklega eru þessir álitsgjafar að rugla saman fræðigreininni „hagfræði“ annars vegar og svo kenningarkerfi á borð við „ný-frjálshyggju“ hins vegar. Það er mjög mikilvægt að átta sig á að það er ekki samasemmerki milli þessara tveggja hluta. Það að setja samasemmerki milli „ný-frjálshyggju“ og/eða markaðshyggju annars vegar og hagfræði hins vegar er svipað og setja samasemmerki milli „vessakenningarinnar“ annars vegar og læknisfræði hins vegar.
Þórólfur birti líka ágæta grein til varnar hagfræðinni í tímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla árið 2011. „Það má ekki ganga of langt í kröfum gagnvart hagfræðilegum niðurstöðum,“ skrifaði hann. „Hagfræðin er ekki grein sem ætlað er að gefa fullnægjandi svör við öllum spurningum.“
Þarna birtist ákveðin auðmýkt gagnvart hagfræðinni. Hún veitir aðeins takmörkuð svör við ráðgátum mannlífsins og færir okkur engar allsherjarlausnir. Hagfræðingur getur auðvitað aðhyllst harða markaðshyggju (jafnvel trúað því, eins og Ásgeir Jónsson, að fjármagnshöft séu mannréttindabrot) en slík heimsmynd er pólitísk afstaða, ekki einhver hlutlæg niðurstaða sem hægt er að leiða í ljós með vísindalegum aðferðum, stærðfræðijöfnum eða haglíkönum.
„Þú átt að nota markaðslausnir“
Það er fróðlegt að bera orð Þórólfs saman við sjónarmið sem nýskipaður seðlabankastjóri Íslands hefur sett fram. Eftirfarandi var haft eftir Ásgeiri Jónssyni í viðtali við Hjálma, tímarit hagfræðinema, árið 2017:
Greinin [hagfræði] hefur mjög skýr svör við mjög mörgum hlutum og það er algjört skilyrði, ef þú ert hagfræðingur, að þú sért tilbúinn að leggja þessi svör fram þó það sé ekki alltaf vinsælt. Hagfræðin leggur áherslu á markaðinn og markaðsfrelsi: Þú átt að nota markaðslausnir. Hagfræðingar verða alltaf að vera boðberar markaðsfrelsis.
Í fyrra sagði hann svo í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins, að hagfræðin hefði „svör á reiðum höndum við öllum vandamálum samtímans“. Um sama leyti birti hann grein þar sem því er slengt fram sem „sannleika“ og „staðreynd“ að íslenskir skattstofnar séu „að mestu fullnýttir“ og stjórnvöld framtíðar „get[i] ekki sótt nýtt fjármagn með nýjum sköttum til þess að standast vaxandi kröfur um velferðarþjónustu“.
Allt eru þetta groddaleg dæmi um að pólitísk afstaða – í þessu tilviki hörð markaðshyggja og hægristefna – sé klædd í fræðilegan búning. Hagfræðin sem slík felur auðvitað ekki í sér neina kvöð um að alltaf séu notaðar markaðslausnir og alltaf boðað markaðsfrelsi. Ásgeir fellur einfaldlega sjálfur í þá gryfju sem Þórólfur nefnir: að rugla saman hagfræði og nýfrjálshyggjuboðskap.
Þegar Friedrich von Hayek tók við nóbelsverðlaunum sænska seðlabankans í hagfræði árið 1974 stakk hann upp á því að framvegis yrðu viðtakendur verðlaunanna látnir sverja þess eið að sýna auðmýkt, virða takmarkanir fræðigreinarinnar og láta aldrei í veðri vaka að hagfræðin veiti altækari svör en hún raunverulega gerir. Hagfræðingar gætu jafnvel tileinkað sér eins konar hippókratesareið í þessum anda.
Ásgeir Jónsson hefði gott af því.
Vonandi nálgast hann verkefnin í Seðlabankanum af auðmýkt og víðsýni frekar en þeirri kreddufestu sem birst hefur í yfirlýsingum hans sem fræðimaður og forseti hagfræðideildar.
Íslenskt samfélag og raunar heimsbyggðin öll hefur brennt sig nóg á hagfræðilegu trúarofstæki.
Athugasemdir