„Atbeini forseta Íslands er nauðsynlegur þegar kemur að þriðja orkupakkanum,“ skrifar Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, í grein í Morgunblaðinu í dag.
Orkupakkinn hefur ekki verið afgreiddur á Alþingi, en Ólafur segir ljóst að Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hljóti að íhuga að vísa málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Í 26. gr. stjórnarskrárinnar er mælt fyrir um að ef forseti synji lagafrumvarpi staðfestingar skuli fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um frumvarpið. Ólafur heldur því fram að þetta ákvæði geti einnig tekið til þingsályktunar.
„Málið liggur að stærstum hluta fyrir sem þingsályktunartillaga um að tilteknar Evrópureglugerðir fái lagagildi. Almennar þingsályktanir koma ekki til kasta forseta. Hér ræðir um þingsályktun um að taka upp í landsrétt tilteknar Evrópureglur. Þegar þannig stendur á er þingsályktun lögð fyrir forseta,“ skrifar Ólafur.
Ólafur segir því að orkupakkinn í heild muni fara um hendur forseta. „Í fersku minni er að stjórnarskráin geymir í 26. grein ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu synji forseti lagafrumvarpi staðfestingar,“ skrifar Ólafur. „Þingsályktunin felur í sér samþykki Alþingis fyrir að veita tilteknum Evrópureglum lagagildi. Nærtækt er að líta þannig á að 26. greinin eigi eins við í þessu tilfelli. Samkvæmt því er á valdi forseta að leggja orkupakkann í dóm þjóðarinnar.“
Athugasemdir