Bæjarráð Seltjarnarnesbæjar samþykkti að hækka gjaldskrár leikskóla og frístundar um 10 prósent á fundi sínum í dag. Bæjarfulltrúi í minnihluta segir hækkunina koma verst við fólk í viðkvæmri stöðu.
Halli var á rekstri Seltjarnarnesbæjar upp á 264 milljónir króna í fyrra, eða um 324 milljónum frá áætlun. Guðmundur Ari Sigurjónsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar, segir gjaldskrárhækkunina vera viðbrögð við taprekstri og stóraukinni skuldsetningu undanfarin ár.
„Þær aðgerðir sem gripið hefur verið til og þær tillögur sem kynntar hafa verið snúa að því að hækka gjaldskrár eldri borgara, barnafjölskyldna og húsaleigu í félagslegu húsnæði bæjarins,“ segir Guðmundur Ari.
„Staðan á rekstri bæjarins er ekki ákjósanleg en þetta er staða sem Sjálfstæðisflokkurinn ber ábyrgð á að koma öllum Seltirningum í. Það væri því mun manneskjulegri pólítík að allir bæjarbúar tækju þátt í viðsnúningi bæjarins í samræmi við tekjur sínar frekar en að hækka aðeins gjöld hjá hópum í viðkvæmri stöðu.“
Guðmundur Ari segir hækkunina vera skýrt brot á yfirlýsingu Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna lífskjarasamninga. „Sambandið mæltist til þess að sveitarfélögin myndu ekki hækka gjaldskrár sínar á árinu 2019 umfram það sem þegar er komið til framkvæmda,“ segir hann. „Einnig mæltist Sambandið til þess að á árinu 2020 hækki gjaldskrár sveitarfélaga um 2,5% að hámarki, en minna ef verðbólga verður lægri. Hækkun sem þessi er skýrt brot á þessari yfirlýsingu og er líkleg til að setja kjaraviðræður í enn meiri hnút.“
Athugasemdir