Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata og formaður Laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins, segir að umfjöllun Stundarinnar um meinta nauðgun sem lögregla kaus að rannsaka ekki valdi henni verulegum áhyggjum af stöðu kynferðisbrotamála í íslensku réttarvörslukerfi. Málið sýni hve brýnt sé að koma á sjálfstæðu eftirliti með störfum lögreglunnar.
Í nýjasta tölublaði Stundarinnar er fjallað um að lögregla og ríkissaksóknari hafi ekki talið tilefni til að rannsaka hvort nauðgun ætti sér stað þegar maður setti lim sinn í endaþarm 17 ára stúlku meðan hún svaf. Maðurinn viðurkenndi verknaðinn í yfirheyrslu vegna annars máls og sagðist hafa vitað að stúlkan, þá kærasta hans, væri mótfallin endaþarmsmökum. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hóf ekki rannsókn, meint brot var ekki skráð í málaskrá, stúlkunni ekki skipaður réttargæslumaður og hún ekki látin vita af framburði mannsins. Kvaðst maðurinn sjálfur hafa verið sofandi og taldi því lögregla að háttsemin gæti ekki talist nauðgun eða kynferðisbrot. Hefur nú ríkissaksóknari komist að sömu niðurstöðu en samkvæmt niðurstöðu embættisins frá 11. júní 2019 verður „ekki […] séð að sakborningurinn hafi með framangreindum framburði sínum verið að viðurkenna nauðgun eða lýsa ásetningsverki“.
Þórhildur Sunna fjallar um málið í færslu á Facebook.„Rannsóknarvaldið og ákæruvaldið skýlir sér á bak við það að maðurinn segist hafa verið sofandi á meðan hann nauðgaði konunni í endaþarm (í hvaða veruleika búa þau eiginlega?) til þess að hvítþvo viðbragðsleysi lögreglu eftir að maðurinn játar brotið í skýrslutöku hjá lögreglu vegna gruns um annað kynferðisbrot,“ skrifar hún.
„Það er svo margt í þessari grein sem vekur hjá mér ugg, veldur mér reiði og áhyggjum af stöðu kynferðisbrotamála í réttarvörslukerfinu. Áttum við ekki að vera komin lengra en þetta? Allt í góðu að nauðga stelpu á meðan það er "óvart" og vegna þess að "hann hætti um leið og hann vaknaði”?“
Þórhildur Sunna segir augljóst að koma verði á sjálfstæðu eftirliti með störfum lögreglu. „Þessi grein uppljóstrar um helsjúka meðvirkni réttarvörslukerfisins með starfsháttum lögreglu sem lýsir sér best í því að héraðssaksóknari bíður ekki einu sinni eftir skýringum lögreglu á því hvers vegna hún gerði ekkert með þessa játningu mannsins áður en hann vísar málinu frá. Lögreglan þarf semsagt ekkert að svara fyrir sína starfshætti, héraðssaksóknari sér bara um að finna upp afsakanir fyrir hana! Þetta eru starfshættir stofnunarinnar sem á að hafa eftirlit og aðhald með störfum lögreglu! Samtryggingin er víða.“
Athugasemdir