Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, vill að sjónarmið þeirra vísindamanna sem telja loftslagsbreytingar ekki vera af mannavöldum verði kennd í grunn- og framhaldsskólum landsins.
Birgir ræddi um fréttir af því að umræðan um loftslagsmál væri að valda börnum áhyggjum í umræðum á Alþingi í dag. „Þá er svona spurning hvort það sé kannski eðlilegt að það fari fram fræðsla um þessi mál og eflaust eru þessi mál rædd í grunnskólum og framhaldsskólum. En það er svona spurning á hvaða forsendum sú fræðsla er,“ sagði Birgir.
„Nú er það þannig að það er hægt að nálgast langan lista af vísindamönnum sem telja til dæmis að þær loftslagsbreytingar sem við erum nú að upplifa séu af náttúrulegum orsökum,“ sagði Birgir. „Það er einnig hægt að nálgast langan lista af vísindamönnum sem telja að það sé ekki hægt að segja nákvæmlega fyrir um áhrif mannsins á loftslagsbreytingarnar. Og það er einnig hægt að nálgast langan lista af vísindamönnum sem telja að það séu óþekktar ástæður að baki þessum loftslagsmálum.“
Birgir nefndi könnun meðal barna sem hefði sýnt að þau hefðu áhyggjur af loftslagsbreytingum. „Það sem ég er einfaldlega að segja hér, herra forseti, er að í þessari umræðu og þá sérstaklega innan skólastigsins þá sé nú kannski mikilvægt að allir þessir þættir séu skoðaðir og öll rök skoðuð fyrir ástæðum þess að hér hefur hitastig á jörðinni hækkað og hækkað nokkuð hratt síðastliðin þrjátíu ár.“
Athugasemdir