Ríkisfyrirtækið Isavia mun að öllum líkindum verja tugum milljarða í uppbyggingu og stækkun Keflavíkurflugvallar næstu árin. Áætlanir Isavia í fyrra gerðu ráð fyrir samtals 91,4 milljarða fjárfestingum árin 2019 til 2022 en samkvæmt upplýsingum frá Isavia má ætla að fjárhæðirnar verði lægri og ekki verði farið jafn bratt í uppbygginguna og áður stóð til í ljósi samdráttar og óvissu í ferðaþjónustugeiranum.
Aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum gerir ráð fyrir að 6,8 milljarðar renni til sérstakra aðgerða til að auka kolefnisbindingu og vinna gegn útblæstri gróðurhúsalofttegunda næstu árin. Heildarútgjöld ríkisins vegna loftslagsmála eru þó mun hærri ef horft er til allra framlaga til loftslagsvænna samgöngu- og orkuverkefna. Til að mynda er fyrirséð að talsverður kostnaður vegna borgarlínuframkvæmda lendi á ríkissjóði. Nýlega undirrituðu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu samkomulag um að leggja 800 milljónir króna í tæknilegan og fjárhagslegan undirbúning að borgarlínu á þessu ári og því næsta með fyrirvara um að sama framlag komi frá ríkinu.
Samtökin Landvernd telja að það skjóti skökku við að stækka Keflavíkurflugvöll og stefna að umtalsverðri fjölgun ferðamanna og flugferða á sama tíma og ríkisstjórnin setur sér háleit markmið í loftslagsmálum.
„Á sama tíma og ríkisstjórnin hefur ákveðið að verja sjö milljörðum króna til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda þá mun ISAVIA, fyrirtæki í opinberri eigu, verja 93 milljörðum til að stækka Keflavíkurflugvöll um 45%,“ segir í greinargerð ályktunar sem aðalfundur Landverndar samþykkti þann 30. apríl síðastliðinn.
„Ljóst er að engin sérstök þörf er á þessari framkvæmd fyrir íslenskt samfélag, enda eru erlendir ferðamenn hér miklu fleiri en í öðrum löndum, eða um sjö á hvern Íslending. Auk þess hefur núverandi fjöldi ferðamanna aukið verulega álag á íslenska náttúru og reynt á helstu innviði.“
Telja samtökin að stækkun Keflavíkurflugvallar myndi „ganga þvert gegn því markmiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda“ og sé „í raun óskiljanleg í ljósi yfirlýsinga stjórnvalda um mikilvægi þess“.
Losun íslenskra flugrekenda á gróðurhúsalofttegundum hefur aukist talsvert undanfarin ár. Losunin var 813.745 tonn af CO2 árið 2017 en 820.369 tonn í fyrra og Icelandair og Wow Air voru í hópi þeirra íslensku fyrirtækja sem menguðu mest.
Athugasemdir