Við höfðum svikið okkur sjálf. Og borguðum fyrir það.
Náttúruleg viðbrögð líkamans við áhyggjum og ógn er að berjast eða flýja. En við gerum hvorugt, heldur sitjum í skrifstofustólum og bílum. Þannig safnast kvíðinn upp og breytist í sjálfstæða sjálfnærandi ógn.
Þetta var ekki svona. Við þekkjum þetta á fallegustu bæjum landsins, þeim sem byggðust upp áður en bílar tóku umhverfið okkar yfir: Seyðisfirði, Ísafirði, Akureyri, Hafnarfirði og miðborg Reykjavíkur. Þar sem hægt var að nota líkamann til að fara um.
Síðan var byggðinni dreift, því bílarnir voru komnir, og svo þurfti bíl, því byggðin var dreifð. Það þurfti bílastæði og mislæg gatnamót og hverfin þurftu að vera lengra og lengra í burtu, helst bara fyrir svefn, því við höfðum aðskilið allt frá öllu. Árið 1962 var innleitt „danska skipulagið“, þar sem ákveðið var að móta Reykjavík að fullu eftir bílum, með breiðum hraðbrautum vítt um borgina og aðskilda landnotkun. Við áttum að sofa í einu hverfi, vinna í öðru, versla í þriðja. Við settum okkur í málmkassa og aðskildum okkur frá umhverfinu til að komast á milli hólfa lífsins. Við firrtum okkur.
Við gengum einna lengst, en göngum ekki lengur. Íslendingar eiga fleiri bíla en Bandaríkjamenn og eru í efstu sætum á listum yfir bifreiðaeign. Helmingur af borgarlandinu í Reykjavík er fyrir bíla. Þetta sést á hverjum degi. „Gangandi vegfarendur“, sem áður kallaðist „fólk“, hraða sér óttaslegnir og afsakandi yfir götuna þegar bílarnir nálgast. Reglulega er keyrt á börn og börn eru keyrð í skólann og verða útkeyrð af inniveru og tölvutilveru.
„Við svikum okkur sjálf, brennum út og kulnum“
Við svikum okkur sjálf, brennum út og kulnum sitjandi í uppréttri fósturstellingu í fjölstillanlegum skrifstofustólum upplýst stjörf af skjábjarmanum. Þegar við loksins lítum upp erum við ekki lengur upplitsdjörf eins og okkur var ætlað.
Við hættum að beita okkur og hættum að leika okkur. Við veltumst ekki um í drullunni eins og Gurra grís og pabbi grís. Við gerðum hunda útlæga, notuðum bakteríudrepandi uppþvottalög og uppskárum ofnæmisfaraldur vegna skorts á tengingu við jörðina.
Við erum svo mörg komin á leiðarenda í kulnun og kvíða og látum tímann líða úr höndum okkar, heimsmethafar í hugslakandi lyfjum með uppvaxandi kynslóð í vaxandi kvíða.
Við verðum að flýja. Flýja undan húsnæðisláninu, leiðinlega yfirmanninum, flýja undan börnunum, makanum, sjónvarpinu, tölvunni, Kringlunni, bensínstöðinni, bílaröðinni.
Í ensku er sama orð notað yfir að flýja og að hlaupa. Við áttum einu sinni þetta orð, að hlaupa var að renna.
Fleiri og fleiri eru farnir að hlaupa út um allt. Að því er virðist tilgangslaust, en flótti hefur tilgang, að hverfa frá því sem ógnar. Að ná upp flæði, að renna, flæða, flýja og sleppa – undan faröldrum sem spretta af firringunni, þar til við loksins finnum okkur sjálf á ný.
Athugasemdir