Tveir af fjórmenningunum sem skipaðir voru landsréttardómarar í trássi við mat hæfnisnefndar árið 2017 hafa nú sótt um dómarastöðu sem nýlega losnaði við Landsrétt vegna starfsloka Vilhjálms H. Vilhjálmssonar eldri.
Þetta eru þau Ásmundur Helgason og Ragnheiður Bragadóttir. Dómararnir, auk Arnfríðar Einarsdóttur og Jóns Finnbjörnssonar, hafa ekki dæmt í málum síðan Mannréttindadómstóll Evrópu dæmdi íslenska ríkið brotlegt í Landsréttarmálinu þann 12. mars síðastliðinn.
Á meðal umsækjenda um lausu dómarastöðuna eru einnig Ástráður Haraldsson, Eiríkur Jónsson og Jón Höskuldsson, þrír þeirra fjögurra sem metnir voru á meðal 15 hæfustu umsækjenda en gengið var fram hjá við skipun landsréttardómara á sínum tíma.
Enn ríkir óvissa um afleiðingar dóms MDE. Í ljósi þess að ríkisstjórn Íslands hefur freistað þess að skjóta Landsréttarmálinu til yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu mun Hæstiréttur ekki taka afstöðu til afleiðinga dóms MDE að landsrétti næstu mánuði eða ár.
Athugasemdir