Lagalegi fyrirvarinn sem fylgir þriðja orkupakkanum – um að enginn sæstrengur verði lagður nema að undangenginni endurskoðun á lagagrundvelli reglugerðar nr. 713/2009 – verður ekki bundinn í ályktunarorð þingsályktunar né í sett lög frá Alþingi heldur einungis látinn fylgja reglugerðinni sjálfri þegar hún verður innleidd í íslenskan rétt með stjórnvaldsfyrirmælum ráðherra. Þetta staðfestir utanríkisráðuneytið í svari við fyrirspurn Stundarinnar um málið.
Ríkisstjórn Íslands sendi út fréttatilkynningu þann 22. mars um að ákveðið hefði verið að leggja fyrir Alþingi þingsályktun um innleiðingu þriðja orkupakkans. „Tillagan inniheldur fyrirvara um að áður en grunnvirki verði reist sem gera mögulegt að flytja raforku milli Íslands og orkumarkaðar Evrópusambandsins verði lagagrundvöllur gerðanna endurskoðaður og komi ákvæði hennar sem varða tengingar yfir landamæri ekki til framkvæmda fyrr en að þeirri endurskoðun lokinni,“ segir í tilkynningunni.
Þennan fyrirvara er hvergi að finna í ályktunarorðum tillögunnar heldur er einvörðungu vikið að honum í greinargerð. Ekki hefur komið fram hvernig fyrirvarinn verður nákvæmlega orðaður.
Spyr hvers vegna fyrirvarinn er ekki í ályktunarorðum Alþingis
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, gagnrýnir þetta harðlega í nefndaráliti sínu um málið. „Í tillögunni sjálfri er ekki minnst einu orði á þennan fyrirvara heldur snýr hún einungis að því að Alþingi heimili ríkisstjórninni að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar og fella inn í samninginn gerðir þriðja orkupakkans,“ segir hann. „Ísland er jafn bundið og áður til þess að innleiða ákvæði þriðja orkupakkans. Því er ekki úr vegi að spyrja af hverju lagalegi fyrirvarinn var ekki hafður í tillögunni sjálfri. Hvorki er að finna þennan lagalega fyrirvara í þeim innleiðingarfrumvörpum né í þingsályktunartillögu sem ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur lagt fram í tengslum við þriðja orkupakkann.“ Þá segir hann allsendis óljóst hvernig fyrirvarinn verði orðaður. „Ótækt er að Alþingi samþykki þingsályktunartillöguna án þess að þessi lagalegi fyrirvari liggi fyrir,“ segir Sigmundur.
Í þingsályktunartillögunni um þriðja orkupakkann er lagt til að Alþingi heimili ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2017 frá 5. maí 2017 um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilteknar gerðir (þ.e. reglugerðir, tilskipanir og ákvarðanir).
Að sögn Sveins H. Guðmarssonar, upplýsingafulltrúa ráðuneytisins, eru ályktunarorðin hefðbundin, í takt við það sem gengur og gerist þegar Alþingi ályktar um heimild ríkisstjórnar til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar og taka gerðir upp í EES-samninginn.
„Verði þessi þingsályktunartillaga samþykkt verður reglugerð (EB) nr. 713/2009 innleidd í íslenskan rétt með hefðbundnum hætti í samræmi við 7. gr. EES-samningsins og þar mun umræddur lagalegi fyrirvari koma fram. Með öðrum orðum þá felur ályktunin í sér heimild fyrir ríkisstjórnina að staðfesta umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, og við það er hægt að aflétta stjórnskipulega fyrirvaranum,“ segir hann.
„Reglugerðin sem kæmi þá venju samkvæmt í framhaldinu innihéldi lagalega fyrirvarann“
„Reglugerðin sem kæmi þá venju samkvæmt í framhaldinu innihéldi lagalega fyrirvarann um að grunnvirki sem gera mögulegt að flytja raforku milli Íslands og orkumarkaðar ESB verði ekki reist eða áætluð nema að undangenginni endurskoðun á lagagrundvelli reglugerðarinnar. Samhliða eru lögð fram þingmál frá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, þ.e. frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum og þingsályktun um breytingu á þingsályktun um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku, þar sem kveðið er á um að ekki verði ráðist í tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng nema að undangengnu samþykki Alþingis.“
„Enginn lögfræðilegur vafi“
Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, hefur hæðst að fyrirvaranum og talað um hann sem „lofsverða blekkingu“, kanínu upp úr hatti sem þjóni einungis þeim tilgangi að tryggja stuðning þingmanna Sjálfstæðisflokksins við innleiðingu þriðja orkupakkans.
Vikið er að fyrirvaranum í áliti meirihluta utanríkismálanefndar: „Til þess að taka af allan vafa er í þingsályktunartillögunni vísað til þess að reglugerð (EB) nr. 713/2009, sem kemur á fót ACER, verði innleidd með lagalegum fyrirvara. Fyrirvarinn er unninn að fyrirmynd þeirrar lausnar sem Stefán Már Stefánsson og Friðrik Árni Friðriksson Hirst lögðu til í álitsgerð sinni og snýr að því að grunnvirki sem gera mögulegt að flytja raforku milli Íslands og orkumarkaðar Evrópusambandsins verði ekki reist eða áætluð nema að undangenginni endurskoðun á lagagrundvelli reglugerðarinnar og ákvæði hennar sem varða tengingar yfir landamæri komi ekki til framkvæmda fyrr en að þeirri endurskoðun lokinni.“
„Þá teljum við mjög ósennilegt að ESA
muni gera athugasemdir við þessa leið“
Lögfræðingarnir Stefán Már Stefánsson og Friðrik Árni Friðriksson Hirst hafa lýst því yfir í bréfi til utanríkisráðherra að enginn lögfræðilegur vafi sé á því að sú leið sem lögð er til grundvallar í þingsályktunartillögu utanríkisráðherra sé í samræmi við stjórnarskrá. „Þeir ágallar sem við teljum vera á þessari leið lúta eingöngu að því hvort upptaka og innleiðing gerðarinnar með þessum hætti verði tilefni til athugunar af hálfu ESA, þ.e. hvort innleiðing gerðarinnar standist þjóðréttarlegar skuldbindingar samkvæmt EES samningnum,“ sem telja þó „mjög ósennilegt að ESA muni gera athugasemdir við þessa leið“.
Athugasemdir