Foreldrar ósáttir vegna myglu, kvíða og eineltis í skólanum. Svona hljóðar titill heilsíðufréttar um ástandið í Varmárskóla í aprílútgáfu Stundarinnar.
Bæjarstjóri kveinkar sér þar undan gagnrýni foreldrafélags skólans og segir hana “óhóflega”. Sú túlkun kemur ekki á óvart en er samt óskiljanleg. Núverandi stjórn félagsins hefur sýnt í verki aðdáunarvert þor og málefnalega staðfestu gagnvart bæjaryfirvöldum og skólastjórnendum sem með málalengingum og undanskoti á upplýsingum hafa reynt að koma í veg fyrir að ástandið í skólanum komist í hámæli.
Trúnaðarbrot og gerræðislegir stjórnarhættir
Samkvæmt fréttinni hefur verkfræðilegum úttektum á húsnæði skólans verið stungið undir stól, auk þess sem niðurstöðum um einelti var kippt út úr könnunum meðal nemenda og foreldra áður en þær voru birtar á vef skólans.
Það sem þó vekur sérstaka athygli fyrrum bæjarráðsmanns í fréttinni er tilurð skýrslu verkfræðistofunnar Verksýnar frá því í kosningamánuði 2018 þar sem viðhaldsþörfin í Varmárskóla er metin á að lágmarki 200 milljónir kr. Hvorki foreldrar, né þáverandi bæjarráð voru upplýst um gerð og innihald skýrslunnar. Á viðhaldsþörfina og gerð skýrslunnar var heldur ekki minnst í bæjarráði í reglubundinni yfirferð framkvæmdastjóra umhverfissviðs yfir verkefni eignasjóðs 2018. Við gerð fjárhagsáætlunar 2019 gleymdist skýrslan með öllu. Fyrst nú í páskavikunni, 11 mánuðum síðar, komst tilvist skýrslunnar á dagskrá í bæjarráði en með þeim annmörkum þó að hún var, svo einkennilegt sem það virðist, ekki meðal fundargagna.
Á yfirstandandi kjörtímabili hefur oftsinnis verið rætt um rakaskemmdir í Varmárskóla að frumkvæði foreldra. Á fundum með foreldrum og í minnisblöðum til kjörinna fulltrúa hafa skólayfirvöld einungis tiltekið lauslega úttekt verkfræðistofunnar EFLU. Sé litið til áætlaðs kostnaðar vegna viðgerða á húsnæði skólans er úttekt Verksýnar mun yfirgripsmeiri. Hún átti og á því fullt erindi til kjörinna fulltrúa og foreldra. Sá fyrirsláttur bæjarstjóra að skýrslan sé og hafi einungis verið vinnugagn eignasjóðs stenst ekki skoðun. Henni hefur markvisst verið haldið leyndri.
Í slíkum undanbrögðum hljóta að felast alvarleg trúnaðarbrot gagnvart foreldrum sem treysta skólayfirvöldum fyrir börnunum sínum en líka andlýðræðislegir stjórnarhættir þar sem mikilvægum upplýsingum um ástand skólahúsnæðis í 900 nemenda skóla er haldið leyndum fyrir réttkjörnum fulltrúum.
Forysta Sjálfstæðisflokksins taki pokann sinn
Þöggun er ekki ný af nálinni hjá bæjaryfirvöldum í Mosfellsbæ en hafi einhvern tíma verið ástæða til að láta bæjarstjóraflokkinn taka pokann sinn þá er það núna.
Pólitískt framhaldslíf Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Mosfellsbæjar er í boði Vinstri grænna. Þeim væri í lófa lagið að segja hingað og ekki lengra og bjarga með því velferð barnanna okkar úr höndunum á stjórnmálaafli sem tekur eigin viðgang fram yfir velferð nemenda og starfsfólks í Varmárskóla.
„Pólitískt framhaldslíf Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Mosfellsbæjar er í boði Vinstri grænna“
D-listi hefur farið með fræðslumálin í bæjarstjórn í 17 ár, þar af þau 13 ár sem flokkarnir hafa starfað saman. Undir þeirra stjórn hefur skólastarfi í Varmárskóla farið hnignandi, þróast frá því að þykja skara fram úr, í það að mælast við og undir meðallagi á landsvísu.
Pössum upp á sjálfstæði foreldrafélagsins!
Huggun harmi gegn er þó að í Varmárskóla skuli vera foreldrafélag sem veit sínu viti og setur velferð nemenda og starfsfólks fremst í forgangsröðina, þrátt fyrir óboðleg vinnuskilyrði í boði D- og V-lista. Það eru ekki sjálfgefið að skólar státi af foreldrafélagi með svo skýr markmið. Pössum upp á sjálfstæði félagsins í þágu barnanna okkar!
Athugasemdir