Þegar ný verkalýðsforysta kom fram á sjónarsviðið, róttækari og baráttuglaðari en fyrr, greip um sig mikil múgæsing í ákveðnum hópum samfélagsins sem sáu fyrir sér að æsingamenn kommúnista hefðu ákveðið að lama þjóðfélagið með verkföllum og dansa síðan stríðsdans í kringum verðbólgubálið og syngja nallann.
Svo mikill var óttinn í skrifum þeirra sem mest gengust upp í hættunni að það var engu líkara en við þyrftum öll að skríða von bráðar inn í torfkofana og naga skósóla nema við værum fyrri til og enduðum þetta með haglabyssu í einrúmi.
En það fór ekki þannig. Apríl er rétt að byrja og búið að skrifa undir nýjan kjarasamning sem er allt annað en sú niðurlægjandi málamiðlun sem atvinnurekendur og stjórnvöld lögðu á borðið i upphafi. Áherslan er á að bæta kjör láglaunafólks og barnafjölskyldna og ljóst að ný verkalýðsforysta hefur unnið fágætan og fallegan sigur fyrir sitt fólk og þó aðallega þá sem þrátt fyrir fulla vinnu bjuggu við fátækt og stórlega skert lífskjör.
Mesta kapítalið í þessari lotu er þó samstaða og sýnileiki fólksins sem krafðist breytinga. Það er aflið sem getur kannski gert það að verkum að við fáum samfélagið okkar til baka. Ekki bara krónur til viðbótar í veskið.
Við þurfum samfélagið okkar til baka.
Tvær íslenskar konur sem greindust með brjóstakrabba í desember hafa sótt sér læknismeðferð, önnur í Reykjavík en hin í Edinborg í Skotlandi þar sem hún er búsett. Á meðan konan á Íslandi hefur orðið að greiða yfir 800 þúsund krónur í útlagðan kostnað vegna veikindanna á rúmlega þremur mánuðum, hefur sú í Skotlandi ekki þurft að bera neinn kostnað. Tímaritið Mannlíf greindi frá þessu um síðustu helgi en við erum alltaf að heyra sambærilegar sögur.
„Það hafa ekki allir efni á að veikjast á Íslandi.“
Það hafa ekki allir efni á að veikjast á Íslandi.
Smám saman hefur dyrum samfélagsins verið lokað á þá sem ekki geta keypt sér aðgang að heilbrigðisþjónustu. Þetta skerðir lífsgæði stórkostlega og kostar örugglega meira þegar upp er staðið í ótímabærri örorku, spítalavist og jafnvel fangavist. Og þá eru ótaldar þjáningar þeirra sem verða fyrir barðinu á þessari stefnu.
Það er alveg ljóst að láglaunafólk á Íslandi hefur ekki efni á að veikjast alvarlega, hvorki á líkama né sál, eins og ástandið er núna. Það hefur vaxið hægt og hljóðlega fyrir augunum á okkur heill frumskógur af gjöldum fyrir það sem þótti áður sjálfsagt að væri greitt úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Meðan til er fólk sem vinnur á lágmarkskjörum duga engar smáskammtalækningar. Það þarf að afnema þessi gjöld.
Við þurfum samfélagið okkar til baka.
Núna sér fyrir endann á ferðabólunni með brotlendingu WOW-flugfélagsins og fram undan er niðursveifla í íslensku efnahagslífi til lengri eða skemmri tíma. Vissulega kom ferðabólan á réttum tíma fyrir efnahagslífið og við gátum rétt úr kútnum eftir hrunið en það eru óneitanlega vonbrigði að stjórnmálamenn hafi ekki getað komið sér saman um skattlagningu af ferðamönnum meðan allt lék í lyndi til að standa straum af uppbyggingu innviða, þar á meðal heilbrigðisþjónustu.
Áhersla stjórnmálamanna á skattalækkanir og ívilnanir til þeirra sem mest hafa, eignafólks, kvóta- og fjármagnseigenda, er í ósamræmi við það samfélag sem við viljum byggja upp. Íslensk þjóð hefur margsinnis svarað því til í skoðanakönnunum að hún vilji heilbrigðisþjónustu fyrir alla óháð efnahag. En af hverju erum við þá með stjórnmálamenn sem þora ekki að taka af skarið?
Við verðum að fá samfélagið okkar til baka. Og það gerist ekki nema peningarnir verði sóttir til þeirra sem hafa fengið að hola það að innan og sölsa undir sig auðlindirnar.
Stjórnmálamenn og atvinnurekendur eru lukkulegastir allra Íslendinga ef marka má netkönnun sem Landlæknisembættið lét gera nýlega. Verkafólk og starfsfólk í þjónustu og afgreiðslustörfum er hins vegar óhamingjusamast.
Það er eitthvað mjög óþægilegt við þessa niðurstöðu. Óþægilega satt.
Verkalýðsforystan sætti áður gagnrýni fyrir að vera of meðvirk með atvinnurekendum, núna hefur dæmið snúist við og róttækir hugsjónamenn og -konur hrifsuðu til sín völdin og það skilar sér í betri kjarasamningum fyrir launafólk og íslenskt samfélag en við höfum séð í langan tíma.
Kannski þurfum við líka róttæka og baráttuglaða stjórnmálamenn sem þora að standa með samfélaginu okkar. Ekki stjórnmálamenn sem eru handvaldir inn af forystumönnum flokkanna, njörvaðir niður í þröngar flokksklíkur og óttast ekkert meira en grasrótina og hugsa um það eitt að viðhalda sjálfum sér og forréttindum sínum.
Við ættum að láta þennan fallega sigur verkalýðshreyfingarinnar verða hvatningu til að breyta stjórnmálunum líka. Og til að breyta okkur. Kannski er kominn tími til að setja fótinn niður og standa með sjálfum sér.
Kannski er kominn tími til að fá samfélagið til baka.
Athugasemdir