„Við erum að vonast til þess að samfélagið muni hreyfast í þann takt að við vinnum ekki mikið eftir hádegi á föstudögum,“ sagði Flosi Eiríkisson, formaður Starfsgreinasambandsins á blaðamannafundi vegna undirritunar kjarasamninga í kvöld.
Samkvæmt nýundirrituðum kjarasamningum getur starfsfólk á einstökum vinnustöðum greitt atkvæði um breytingu vinnutíma.
Sem dæmi geti starfsfólk kosið að sleppa tveimur 20 mínútna kaffitímum og farið 53 mínútum fyrr heim á hverjum degi. Einnig sé hægt að safna upp styttingunni og fara ýmist heim á hádegi á föstudögum eða vinna aðeins annan hvern föstudag.
„Hér er verið að stíga mjög stórt skref í að auka vinnustaðalýðræði,“ sagði Flosi.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði að upptaka aukins sveigjanleika sé „hugsað sem tæki til að jafna fjölskylduábyrgð“.
Samkvæmt forsendum kjarasamningsins getur styttri vinnutími bætt samræmingu fjölskyldu og vinnu, og leitt af sér aukna framleiðni.
Athugasemdir