„Ég kæri mig ekki um opnari landamæri fyrir förufólk,“ skrifar Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari á Facebook-síðu sinni. „Eigum við þessa að vænta?“ spyr hann og deilir frétt um að hátt hlutfall ofbeldisbrota í Noregi sé framið af innflytjendum. Þá lýsir hann þeirri skoðun að þöggun ríki um kynferðisbrot sem framin eru af múslimum í Bretlandi.
Þetta eru þrjú nýleg dæmi um viðhorf sem embættismaðurinn lætur í ljós á Facebook-síðu sinni en undanfarna mánuði hefur hann ítrekað beint spjótum að minnihlutahópum á þeim vettvangi og jafnframt „lækað“ eins konar kynþáttahyggjuboðskap frá félagsskapnum Vakri, samtökum um evrópska menningu.
Í fyrra flutti Helgi Magnús erindi á samkomu í Berlín þar sem hann sagðist ekki hafa neitt á móti húðlit og trúarbrögðum flóttafólks svo lengi sem það samþykkti lífsvenjur og grundvallarreglur Vesturlanda. Sú væri ekki raunin í „sumum múslimalöndum“.
Nýlega birti hann svo hugleiðingu um þungunarrof þar sem hann gagnrýnir málflutning um „svokallaðan sjálfsákvörðunarrétt kvenna“ og segir talsmenn frjálslyndari löggjafar beita sams konar mælskubrögðum og þeir sem réttlæta morð á minnihlutahópum.
Sem vararíkissaksóknari er Helgi Magnús Gunnarsson einn æðsti embættismaður réttarvörslukerfisins á Íslandi. Óumdeilt er að opinberir starfsmenn njóta tjáningarfrelsis samkvæmt stjórnarskrá og hafa rétt til þátttöku í opinni og frjálsri umræðu um þjóðfélagsmál. Þetta á við um handhafa ákæruvalds jafnt sem aðra embættismenn.
Af siðareglum ákærenda má þó ráða að ekki sé aðeins ætlast til þess að þeir sýni óhlutdrægni í störfum sínum og hafni hvers kyns mismunun á grundvelli kynþáttar, kyns, þjóðernis og trúar, heldur einnig að þeir forðist að tala og hegða sér með þeim hætti að hlutleysi þeirra verði dregið í efa.
Mega ekki rýra traust til ákæruvaldsins
Árið 2005 samþykkti ráðstefna evrópskra ríkissaksóknara leiðbeiningarreglur um siði og breytni opinberra ákærenda. Þar er að finna sérstakar reglur um breytni saksóknara í einkalífi. „Opinberir ákærendur mega með athöfnum í einkalífi sínu hvorki stefna í hættu heiðarleika ákæruvaldsins, réttsýni þess eða óhlutdrægni, né þeirri ímynd heiðarleika, réttsýni og óhlutdrægni sem það kann að njóta,“ segir í 4. gr. reglnanna. „Opinberum ákærendum ber að sýna breytni sem stuðlar að og heldur við trausti almennings á starfi þeirra.“
Þann 8. nóvember 2017 gaf ríkissaksóknari út fyrirmæli um siðareglur fyrir ákærendur á Íslandi til fyllingar á evrópsku leiðbeiningarreglunum. Þar segir í 3. gr.: „Ákærendur skulu gæta þess að framkoma og framganga þeirra utan starfs sé ekki til þess fallin að rýra traust til ákæruvaldsins“. Fram kemur að ákærendur skuli forðast að hafast nokkuð það að sem er þeim til vanvirðu og álitshnekkis eða getur varpað rýrð á störf þeirra og dregið úr trausti almennings gagnvart þeim. Þá þurfi ákærendur að gæta þess, taki þeir þátt í opinberri umræðu, að framganga þeirra sé með þeim hætti að „hlutleysi þeirra sem ákærenda verði ekki dregið í efa“.
Stundin sendi Sigríði Friðjónsdóttur ríkissaksóknara fyrirspurn og spurði hvort hún teldi æskilegt að saksóknari hjá embættinu tjáði sig með þeim hætti sem Helgi gerir á samfélagsmiðlum. Þá var spurt hvort embættið hefði lagt mat á hvort málflutningur Helga samræmist siðareglum ákærenda, svo sem um framkomu utan starfs.
„Samskipti mín við starfsmenn embættisins er ekki málefni sem ég fjalla um við fjölmiðla, þar með talið þegar kemur að álitaefnum sem varða siðareglur ákærenda,“ segir í svari Sigríðar. „Þær reglur hafa vissulega leiðbeiningargildi varðandi alla
Athugasemdir