Kærunefnd útlendingamála felldi úr gildi þrjár ákvarðanir Útlendingastofnunar síðasta haust í málum þar sem hælisleitendum hafði verið neitað um efnislega meðferð á Íslandi í ljósi þess að Ungverjaland hafði þegar veitt þeim vernd.
Kærunefndin taldi fyrirliggjandi gögn benda til þess að fólkið myndi eiga erfitt uppdráttar í Ungverjalandi, meðal annars vegna kynþáttamismununar og bágrar stöðu flóttafólks sem þar býr. Því bæri íslenskum stjórnvöldum skylda til að meta umsóknir fólksins efnislega. Um svipað leyti ógilti kærunefndin einnig ákvörðun um að barnafjölskylda í viðkvæmri stöðu skyldi send til Grikklands án efnismeðferðar þar sem hún hefði þegar fengið hæli.
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hefur nú kynnt drög að lagafrumvarpi sem er ætlað að koma í veg fyrir að mál eins og þessi fái efnislega meðferð á Íslandi í framtíðinni. Verður þannig réttarstaða þeirra hælisleitenda sem þegar hafa fengið stöðu sína sem flóttamenn viðurkennda í löndum á borð við Ungverjaland og Grikkland skert verulega og girt fyrir að kærunefndin geti komið í veg fyrir brottflutning þeirra.
Vill hætta að fresta réttaráhrifum
Í fyrrnefndum úrskurðum kærunefndar var lagt fyrir Útlendingastofnun að taka hælisumsóknir fólksins til efnislegrar meðferðar á grundvelli 1. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga þar sem fjallað er um „sérstakar ástæður“. Fyrirhugaðar lagabreytingar fela í sér að sá málsliður mun ekki eiga við um einstaklinga sem þegar hafa hlotið alþjóðlega vernd í öðru ríki. Þá verður hópurinn sviptur möguleikanum á að fá réttaráhrifum ákvörðunar Útlendingastofnunar frestað.
Athugasemdir