Björk Vilhelmsdóttir, félagsráðgjafi og fyrrverandi borgarfulltrúi, segir dæmi um að konur fari í þungunarrof vegna geðrænna erfiðleika óttast að verið sé að „búa til enn meiri og alvarlegri geðrænan vanda við slíkar aðstæður“ með því að heimila þungunarrof til loka 22. viku meðgöngu.
Í frumvarpi Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra til laga um þungunarrof er lagt til, í samræmi við tillögur ljósmæðra og fæðingarlækna, að konum verði tryggt sjálfsforræði og fullt ákvörðunarvald um hvort þær ala barn fram að lokum 22. viku meðgöngu óháð því hvað liggur að baki ákvörðuninni. Eftir tímamarkið verður heimilt að framkvæma þungunarrof ef lífi þungaðrar konu er stefnt í hættu við áframhaldandi þungun eða ef fóstur telst ekki lífvænlegt til frambúðar.
Björk Vilhelmsdóttir tjáir sig um málið á Facebook í dag en hún telur alltof gengið „að bjóða upp á þungunarrof þar til fóstur er orðið lífvænlegt utan móðurkviðar“.
Spyr hvort veittur verði fæðingarstyrkur vegna áfalls við þungunarrof
„Ég var félagsráðgjafi á Kvennadeild Landspítalans í 5 ár og veit að að þegar konur missa fóstur langt gengar með, þ.e. meira en 18 vikur, þá hafa þær þurft að fæða fóstrin. Það hefur reynst mörgum konum gríðarlegt áfall að ganga í gegnum slíka fæðingu. Mér sýnist ekkert hafa verið fjallað um þessi áföll sem geta leitt af síðbúnu þungunarrofi og finnst það mjög miður. Vegna þessara áfalla hefur verið veittur réttur til fæðingarstyrks í 2 mánuði ef kona missir fóstur eftir 18 vikna meðgöngu. Rétturinn er enn meiri eða 3 mánuðir fyrir hvort foreldri eftir andvana fæðingu eftir 22. vikna meðgöngu. Hvernig eigum við að fara með mál kvenna sem óska eftir þungunarrofi eftir 18 vikna meðgöngu. Verður þá til réttur til fæðingarstyrks, svo heilbrigðiskerfið geti aðstoðað konuna eftir áfallið sem varð við þungunarrofið?“
Þá víkur hún að geðrænum erfiðleikum og þungunarrofi: „Einnig vil ég minna á að stundum fara konur í þungunarrof vegna geðrænna erfiðleika svo sem þunglyndis. Þunglyndi er þess eðlis að þegar það er hvað erfiðast er ómögulegt fyrir hinn þunglynda að sjá að lífið geti orðið betra og að bata sé möguleiki. Við þær aðstæður er nærtækt að fara í þungunarrof. En ekki myndi ég vilja meðhöndla konu sem hefur farið í síðbúið þungunarrof og fætt fóstur, þegar hún hefur náð bata af þunglyndinu. Ég held að við værum að búa til enn meiri og alvarlegri geðrænan vanda við slíkar aðstæður ef leyfa á þungunarrof til loka 22. viku.“
Hún fullyrðir að núverandi tímamörk hafi „nánast aldrei verið til vandræða“ og segir „fráleitt sé að bjóða upp á almenn réttindi til þungunarrofs þar til barn getur lifað utan móðurkviðar.“
Fagfólk gagnrýndi 18 vikna markið
Í upphaflegum frumvarpsdrögum Svandísar Svavarsdóttur var miðað við 18 vikna tímamark. Þetta var gagnrýnt harðlega af fagfólki, t.d. af Félagi íslenskra fæðingar- og kvensjúkdómalækna sem benti á að með því væri í raun „lagt til að réttur kvenna til þungunarrofs vegna mjög alvarlegra fósturvandamála þar sem fóstur væri lífvænlegt væri takmarkaður miðað við núgildandi lög“.
Landspítalinn tók í sama streng og benti á að með 18 vikna markinu væri lokað fyrir þann möguleika að konur geti valið að enda meðgöngu t.d. vegna klofins hryggjar, vatnshöfuðs, litningafrávika, hjartagalla og margra fleiri vandamála sem leiddu til fæðingar barna sem lifðu með fötlun, líkamlega eða andlega. Ekki væri hægt að greina mörg þessara frávika fyrr en eftir 18 vikur og að undanfarinn áratug hefðu á milli 7 og 10 konur á ári rofið þungun vegna galla sem greindust við 20 vikna fósturgreiningu, stundum þrátt fyrir góðar lífslíkur fóstursins eða jafnvel miklar líkur á lífi með margháttuðum aðgerðum og mikilli aðstoð og skertum lífsgæðum fyrir barnið. Taldi spítalinn hag þessa hóps kvenna og foreldra ekki tryggðan ef miðað yrði við 18 vikur.
Athugasemdir