Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, segir að verkalýðshreyfingin hafi lagt fram kröfur án áhrifagreiningar og taki ekki tekið tillit til nútíma hagstjórnar sem miðist við verðbólgumarkmið og ríkisfjármálareglur.
„Kannski var þessi staða á vinnumarkaði skrifuð í skýin við úrskurð Kjaradóms um hækkun á launum alþingis- og embættismanna. Þetta er hins vegar vegferð sem vandséð er að nokkur muni græða á.“
Þetta segir hagfræðingurinn á Facebook. Einn þeirra sem taka undir með honum er Árni Páll Árnason, fyrrverndi formaður Samfylkingarinnar. „Algerlega hárrétt greining,“ skrifar hann.
Kjaraviðræðum Eflingar, VR og Verkalýðsfélaga Akraness og Grindavíkur við Samtök atvinnulífsins var slitið í dag og eru verkalýðsfélögin tilbúin með aðgerðaáætlun um undirbúning verkfallsaðgerða sem þau munu leggja fyrir samninganefnd og stjórn á morgun.
Stéttarfélögin hafa fullyrt að tilboðið sem Samtök atvinnulífsins lögðu fram í síðustu viku hefði „leitt til kaupmáttarrýrnunar fyrir stóra hópa launafólk“. Þá hafi skattatillögur ríkisstjórnarinnar gert að engu allar vonir um að aðkoma stjórnvalda gæti hleypt nýjum glæðum í kjaraviðræðurnar.
Pistill Ásgeirs Jónssonar hljóðar svo:
Sú verkalýðsbarátta sem er nú háð er einstæð fyrir fjórar sakir –
Í fyrsta lagi – er farið fram á miklar kauphækkanir þegar samdráttur blasir við í helstu útflutningsgrein landsins – ferðaþjónustu. Slíkt þekktist ekki áður – ef illa áraði í sjávarútvegi. Yfirleitt hafa íslensk verkalýðsfélög sýnt hörku í uppsveiflu en hófsemi í niðursveiflu. Þessu hefur nú verið snúið á hvolf - þegar efnahagslífið er nú á leið niður eftir 7 ára hagvöxt.
Í öðru lagi eru kröfurnar lagðar fram án kostnaðarmats eða áhrifagreiningar. Það er alls ekki sjálfgefið að niðurstaða nafnlaunahækkana sé ávallt í samræmi við yfirlýstan tilgang. Þess eru mörg dæmi – innanlands og utan – að miklar hækkanir á grunntöxtum hafi leitt til verri kjara hjá hinum verst settu – svo sem vegna verðbólgu, hærri vaxta og aukins atvinnuleysis.
Í þriðja lagi taka kröfurnar ekki taka tillit til nútíma hagstjórnar sem miðast við verðbólgumarkmið og ríkisfjármálareglur. Allar vestrænar þjóðir búa við slíkan ramma – og yfirleitt þykir hann sjálfsagður. Kostnaðurinn við að brjóta ramman kemur fram með gengisfalli, verðbólgu og vaxtahækkunum – sem bitnar verst á þeim sem síst skyldi.
Í fjórða lagi virðist sem kröfugerðarfólk forðist hina raunverulega efnahagsumræðu – um áhrif þeirra krafna sem lagðar hafa verið fram. Í þessu efni er takmarkað gagn að úrdráttum úr Das Kapital eða reynslusögum af ónafngreindum einstaklingum. Þetta er óvenjulegt á síðari tímum.
Kannski var þessi staða á vinnumarkaði skrifuð í skýin við úrskurð Kjaradóms um hækkun á launum alþingis- og embættismanna. Þetta er hins vegar vegferð sem vandséð er að nokkur muni græða á.
Athugasemdir