Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 6 árum.

Samtökin '78 segja frumvarp um hatursorðræðu geta verið túlkað sem stuðningsyfirlýsingu við fordóma

Sam­tök­in '78 mót­mæla frum­varpi Sig­ríð­ar And­er­sen dóms­mála­ráð­herra sem rýmk­ar svig­rúm til að róg­bera og smána hópa á grund­velli kyn­þátt­ar og kyn­hneigð­ar. „Hat­ursorð­ræða er und­an­fari of­beld­is,“ seg­ir í yf­ir­lýs­ingu frá sam­tök­un­um.

Samtökin '78 segja frumvarp um hatursorðræðu geta verið túlkað sem stuðningsyfirlýsingu við fordóma
Lýsa áhyggjum af frumvarpi Samtökin '78 telja að fordómafullt fólk muni líta á það sem stuðningsyfirlýsingu frá stjórnvöldum við málstað þeirra verði frumvarp um hatursorðræðu að lögum. Mynd: Pressphotos.biz / Geiri X

Samtökin '78 lýsa eindreginni andstöðu við frumvarp Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra um breytingar á ákvæðum um hatursorðræðu í almennum hegningarlögum. Telja samtökin að fordómafullt fólk muni líta á það sem stuðningsyfirlýsingu frá stjórnvöldum við málstað þeirra.

Stundin greindi frá innihaldi frumvarpsins í síðustu viku. Verði það að lögum munu ákvæði almennra hegningarlaga um hatursorðræðu verða þrengd og frelsi manna til að rógbera, smána og ógna hópum á grundvelli þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar og kynvitundar mun rýmka. Þá mun ekki lengur vera refsivert að níða og niðurlægja minnihlutahópa á Íslandi nema slík tjáning sé „til þess fallin að hvetja til eða kynda undir hatri, ofbeldi eða mismunun“.

„Við óttumst að fólk sem þjáist af fordómum og viðhefur eða samþykkir hatursorðræðu muni líta á ofangreint frumvarp sem stuðningsyfirlýsingu frá stjórnvöldum,“ segir í yfirlýsingu frá Samtökunum '78. „Það eru væntanlega ekki skilaboð sem ríkisstjórn sem setur fram í stjórnarsáttmála sínum að Ísland eigi að vera ‘í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks’ vill senda. Samtökin ‘78 lýsa þess vegna yfir eindreginni andstöðu sinni við frumvarpið“.

Fram kemur í greinargerð frumvarpsins að tilgangur þess sé að bregðast við tveimur dómum Hæstaréttar Íslands frá árinu 2017 þar sem sakfellt var fyrir brot gegn ákvæðinu um bann við hatursorðræðu vegna umræðu um hinseginfræðslu í Hafnarfirði.

Segir í yfirlýsingunni að í kjölfar frétta af frumvarpinu hafi fjöldi félagsmanna sett sig í samband við Samtökin ‘78 og viðrað áhyggjur sínar og óöryggi vegna fyrirhugaðra breytinga. „Ofbeldi gegn minnihlutahópum verður ekki til í tómarúmi. Það er vel þekkt staðreynd að hatursorðræða er undanfari ofbeldis, en ofbeldi og ofsóknir gagnvart minnihlutahópum hafa ítrekað verið settar í beint samhengi við hatursorðræðu.“

Yfirlýsingin í heild sinni:

Ofbeldi gegn minnihlutahópum verður ekki til í tómarúmi. Það er vel þekkt staðreynd að hatursorðræða er undanfari ofbeldis, en ofbeldi og ofsóknir gagnvart minnihlutahópum hafa ítrekað verið settar í beint samhengi við hatursorðræðu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur bent á það að umburðarlyndi og virðing fyrir jafnrétti og mannlegri reisn séu grundvöllur opinna lýðræðissamfélaga. Þess vegna geti ekki aðeins verið réttlætanlegt, heldur nauðsynlegt að takmarka orðræðu sem dreifir eða hvetur til haturs byggðu á umburðarleysi. Í ljósi þessa hefur verið samstaða um að tjáningarfrelsinu þurfi að setja skorður til þess að vernda frelsi minnihlutahópa.

Núverandi ákvæði um hatursorðræðu (233. gr. a almennra hegningarlaga) er svo hljóðandi: Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

Samtökin ‘78 börðust á sínum tíma fyrir því að hópum hinsegin fólks yrði bætt við ákvæðið, þ.e. að hatursorðræða á grundvelli kynhneigðar (1996) og kynvitundar (2014) skyldi gerð refsiverð. Árið 2015 tóku Samtökin síðan þá ákvörðun að kæra fyrir hatursorðræðu eftir að sérstaklega skaðleg umræða fór fram á opinberum vettvangi í tengslum við hinsegin fræðslu í grunnskólum Hafnarfjarðar. Árið 2017 féllu tveir dómar í Hæstarétti þar sem einstaklingar voru dæmdir sekir um hatursorðræðu gegn hinsegin fólki. Þau ummæli sem sakfellt var fyrir voru mjög gróf, lýstu hatri á hinsegin fólki og bendluðu það, í öðru tilfellinu, við barnaníð. Slík tjáning grefur ekki aðeins undan friðhelgi einkalífs þeirra sem slík orðræða beinist gegn, heldur rænir þau einnig öryggistilfinningu.

Nú liggur fyrir stjórnarfrumvarp frá dómsmálaráðherra þar sem eftirfarandi klausu er bætt aftan við ákvæði um haturorðræðu: enda sé háttsemin til þess fallin að hvetja til eða kynda undir hatri, ofbeldi eða mismunun.

Sérstaklega er tekið fram í greinargerð frumvarpsins að um viðbrögð við dómunum tveimur sé að ræða og að samkvæmt breyttum lögum hefðu fyrrnefndir einstaklingar líklega ekki verið dæmdir fyrir hatursorðræðu. Einnig er tekið fram að þrengja eigi ákvæðið þrátt fyrir að núverandi lög um hatursorðræðu stangist ekki á við tjáningarfrelsisákvæði 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og þrátt fyrir að þetta frumvarp muni minnka refsivernd minnihlutahópa gagnvart hatursorðræðu. Í kjölfar frétta af frumvarpinu hefur fjöldi félagsmanna sett sig í samband við Samtökin ‘78 og viðrað áhyggjur sínar og óöryggi vegna fyrirhugaðra breytinga.

Sérstök ástæða er til þess að hafa áhyggjur af efni greinargerðarinnar, en eins og fram hefur komið er þessi þrenging á ákvæðinu lögð til í beinu samhengi við nýlega dóma sem hafa fallið í Hæstarétti um hatursorðræðu í garð hinsegin fólks. Við óttumst að fólk sem þjáist af fordómum og viðhefur eða samþykkir hatursorðræðu muni líta á ofangreint frumvarp sem stuðningsyfirlýsingu frá stjórnvöldum. Það eru væntanlega ekki skilaboð sem ríkisstjórn sem setur fram í stjórnarsáttmála sínum að Ísland eigi að vera ‘í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks’ vill senda. Samtökin ‘78 lýsa þess vegna yfir eindreginni andstöðu sinni við frumvarpið.

Við munum í framhaldinu skrifa umsögn um frumvarpið og hvetjum önnur félagasamtök og einstaklinga til þess að gera slíkt hið sama.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Hinsegin fræðsla í Hafnarfirði

Mest lesið

Einn og hálfur tími á bráðamóttöku: Sjálfsskaði, hjartastopp og hnífstunga
1
Á vettvangi

Einn og hálf­ur tími á bráða­mót­töku: Sjálfsskaði, hjarta­stopp og hnífstunga

Eitt orð má aldrei nota á bráða­mót­töku Land­spít­al­ans og það er orð­ið ró­legt. Nán­ast um leið og Jón Ragn­ar Jóns­son bráða­lækn­ir hef­ur orð á að það sé óvenju ró­legt á næt­ur­vakt eina helg­ina dynja áföll­in á. Hann hef­ur rétt kom­ið manni til lífs þeg­ar neyð­ar­bjall­an hring­ir á ný. Síð­an end­ur­tek­ur sama sag­an sig.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

Ásgeir greindist með banvænt krabbamein: „Ég ætla samt að halda partí“
1
Viðtal

Ás­geir greind­ist með ban­vænt krabba­mein: „Ég ætla samt að halda partí“

Ás­geir H. Ing­ólfs­son fékk ný­ver­ið dauða­dóm, eins og hann orð­ar það. Krabba­mein­ið sem hann greind­ist með er ekki tækt til með­ferð­ar. Ljóð­skáld­ið og blaða­mað­ur­inn býð­ur því til Lífs­kviðu; mann­fagn­að­ar og list­við­burð­ar á Götu sól­ar­inn­ar við Kjarna­skóg. Ás­geir frá­bið­ur sér orð­ið æðru­leysi í þessu sam­hengi, því auð­vit­að sé hann „al­veg hund­fúll.“

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár