Aldís Schram, dóttir Jóns Baldvins Hannibalssonar, birtir vottorð frá Tryggingastofnun ríkisins á Facebook síðu sinni í dag. Í því kemur fram að hún sé ekki með örorkumat frá stofnuninni.
Sjö konur hafa stigið fram undir nafni og sakað Jón Baldvin um kynferðislegra áreitni. Alls hafa 23 konur birt sögur sínar á vefsíðu og halda frásagnir áfram að berast í sérstökum MeToo hópi kvennanna á Facebook. Jón Baldvin hefur ítrekað sagt að sögurnar eigi allar rætur að rekja til veikinda dóttur sinnar. Hefur Aldís birt vottorð sálfræðings sem segir hana ekki sýna merki geðhvarfasýki, en einkenni áfallastreitu. Birti hún sömuleiðis vottorð heimilislæknis um að í viðtölum við hann hefðu ekki komið fram einkenni geðsjúkdóma.
Aldís var sex sinnum nauðungarvistuð á geðdeild Landspítalans. Hefur hún borið föður sinn þeim sökum að hafa farið fram á nauðungarvistun í kjölfar ásakana um kynferðislega áreitni og ofbeldi. Hann hefur hafnað því. Fjórar beiðnir um nauðungarvistun bárust frá honum á meðan hann var erlendis að störfum sem sendiherra.
Jón Baldvin skrifaði grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann fjallaði ítarlega um meint veikindi Aldísar og umfjöllun Sigmars Guðmundssonar á RÚV um hans mál. „Ef það er satt, sem Sigmar hefur eftir Aldísi í viðtalinu, að hún sé ranglega greind með geðhvarfasýki, ber þá ekki Tryggingastofnun ríkisins, sem að fengnu áliti sérfræðinga Landspítalans hefur skilgreint Aldísi sem „geðfatlaða“, að endurskoða þá málsmeðferð og þar með greiðslu örorkubóta, sem byggðar eru á þessu mati?“
„Enn ein lygi Jóns Baldvins Hannibalssonar hrakin,“ skrifar Aldís. „Jón Baldvin Hannibalsson ku skv. nýjustu fréttum halda því fram að ég sé á orörkubótum - sem er sannanlega ranghugmynd hans meðf. skjali tryggingarstofnunar samkvæmt.“
Skjalið er dagsett í dag, 7. febrúar. „Það vottast hér með, að Aldís Schram [...] er ekki með örorkumat frá Tryggingastofnun ríkisins,“ segir í skjalinu.
Athugasemdir