Íbúar í Árneshreppi á Ströndum hafa tekið sig saman og stofnað matvöruverslun með framlagi 70 hluthafa. Aðeins 43 íbúar eru skráðir til heimilis í hreppnum.
Kaupfélagið í Norðurfirði lagðist niður síðastliðið haust og hafa íbúarnir þurft að panta vörur með flugi. Þetta mun breytast í vor, þegar ný samvinnuverslun fjármögnuð að fjórum milljónum króna verður opnuð.
Stofnfundurinn var haldinn síðasta föstudag. „Það var góð mæting og ríkti bjartsýni á fundinum. Félagið fékk nafnið Verzlunarfjelag Árneshrepps og er stefnt að því að opna með takmarkaðan opnunartíma strax á vormánuðum og síðan með fullum opnunartíma í sumarbyrjun,“ segir í tilkynningu frá Vestfjarðastofu.
Fram kemur að sett var 100.000 króna hámark á hlutafjárkaup til að tryggja dreifða eignaraðild að nýju versluninni.
Undanfarin misseri hafa staðið yfir deilur í hreppnum um hvort heimila eigi framkvæmdir við Hvalárvirkjun við Ófeigsfjörð og Eyvindarfjörð, sem myndi leiða til þess að fossar á svæðinu ýmist skertust eða hyrfu, sem og víðfeðmustu samfelldu óbyggðir Vestfjarða.
Athugasemdir