Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, kærði sig ekki um að skrifa undir heillaóskir til Jóns Baldvins Hannibalssonar í tilefni af áttræðisafmæli og útgáfu bókar um stjórnmálaferil hans.
„Ég get alveg staðfest að ég var beðinn um að vera á þessum lista og hafnaði því,“ segir Logi aðspurður um málið.
Fréttablaðið birti grein í morgun eftir Jón Baldvin, fyrrverandi forystumann jafnaðarmanna á Íslandi, þar sem hann svarar alvarlegum ásökunum fjölda kvenna á hendur sér og setur fram kenningar um þær hvatir sem búi að baki ásökununum.
Í niðurlagi greinarinnar beinir Jón Baldvin spjótum sínum að þingflokki Samfylkingarinnar. „Athygli mín hefur verið vakin á því, að enginn í þingflokki Samfylkingar, sem telur sig a.m.k. á tyllidögum vera arftaka jafnaðarstefnu í íslenskum stjórnmálum, þorði að birta nöfn sín á heillaóskaskrá til „hins aldna leiðtoga íslenskra jafnaðarmanna“,“ skrifar hann.. „Vildu þau kannski ekki? Eða þorðu þau einfaldlega ekki fyrir sitt litla líf að rísa gegn tyftunarvaldi öfgafeminista, sem hafa hreiðrað um sig í valdastöðum í flokknum? Hvort heldur er, vil ég segja við þá eftirfarandi: Heigulsháttur er alvarlegur ljóður á ráði stjórnmálamanna.“
„Í mínum huga segir það sig algerlega sjálft“
Logi Einarsson segir augljóst hvers vegna hann skrifaði ekki undir heillaóskir til Jóns Baldvins. „Það þarf ekkert að útskýra hvers vegna. Í mínum huga segir það sig algerlega sjálft. Og það að styðja eða styðja ekki Jón Baldvin er ekki spurning um heigulshátt eða eitthvert sérstakt kjark eða þor.“
Logi segist aldrei hafa starfað með Jóni Baldvin. „En ég tel mig tilheyra flokki sem praktíserar jafnaðarstefnuna jafnt á tyllidögum sem og í hversdeginum. Ég ber engan kinnroða fyrir því að fullyrða það.“
Athugasemdir