Um þriðjungur allra þingmanna munu flytja saman frumvarp um að almenn sálfræðiþjónusta falli undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands. Breið samstaða er um málið í nær öllum stjórnmálaflokkum. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
„Með þessu frumvarpi erum við að horfa til nútímans,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar. Hún er fyrsti flutningsmaður málsins en alls stendur 21 þingmaður að frumvarpinu. „Það á að vera jafngilt að leita sér lækninga hvort sem það er fyrir andleg veikindi eða líkamleg. Þess vegna viljum við fella sálfræðiþjónustu undir greiðsluþátttökukerfið.“
Í drögum að frumvarpinu segir að eitt höfuðmarkmiðið sé að tryggja aðgengi einstaklinga að sálfræðiþjónustu. Það sé lykilatriði að aðgengi að sálfræðiþjónustu sé gott þegar kemur að því að greina veikindi snemma og tryggja nauðsynlega meðferð.
Samkvæmt klínískum leiðbeiningum landlæknis skal sálfræðimeðferð vera fyrsti kostur við kvíða, þunglyndi og öðrum sálrænum kvillum. Meðferðin er hins vegar kostnaðarsöm fyrir þann sem hana sækir og því ekki nýtt sem skyldi.
María Einisdóttir, framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítalans, segir að frumvarpið hefði átt að hafa litið dagsins ljós fyrir löngu síðan. „Við þurfum sálfræðinga í skóla, heilsugæsluna og nær fólki, ekki bara inni á sjúkrahúsum, það vantar sálfræðinga í forvarnarskyni,“ segir María.
Athugasemdir