Eitt stærsta dagblað Eistlands, Eesti Päevaleht, birti fréttaskýringu í gær þar sem fjallað er um meinta kynferðislega áreitni Jóns Baldvins Hannibalssonar gagnvart fjölda íslenskra kvenna. Málið hefur fréttagildi í Eistlandi í ljósi þeirrar virðingar sem Jón Baldvin nýtur þar, enda var það í utanríkisráðherratíð Jóns Baldvins sem Ísland, fyrst ríkja, viðurkenndi Eistland sem sjálfstætt ríki.
„Utanríkisráðherrann sem var fyrstur til að viðurkenna Eistland flæktur í MeToo-hneyksli á Íslandi.“ Þannig hljóðar fyrirsögnin í frétt Eesti Päevaleht. Vísað er til viðtalanna sem birtust í síðasta tölublaði Stundarinnar við fjórar konur sem lýstu kynferðislegri áreitni af hálfu Jóns Baldvins og bent á að Jón Baldvin hafi verið sæmdur heiðursmerki af Lennart Meri, þáverandi forseta Eistlands, árið 1996. Meint kynferðisáreitni Jóns Baldvins spanni marga áratugi aftur í tímann, en nýjasta atvikið muni hafa átt sér stað síðasta sumar. Rætt er við Þóru Tómasdóttur blaðakonu sem fjallaði um kynferðislegar bréfasendingar Jóns Baldvins til Guðrúnar Harðardóttur, systurdóttur eiginkonu hans sem þá var á unglingsaldri, í Nýju lífi árið 2012. „Hann hafði augljóslega áhuga á unglingsstúlkum á kynþroskaskeiði,“ er haft eftir Þóru.
Athugasemdir