Undanfarna daga hefur fjöldi kvenna stigið fram og lýst áreitni og kynferðisofbeldi sem þær hafa orðið fyrir af hálfu fyrrverandi utanríkisráðherra og sendiherra Íslands, Jóni Baldvini Hannibalssyni.
Brotin virðast spanna fimm áratugi og beinast gegn börnum, unglingum og fullorðnum konum. Þá hefur Aldís Schram, dóttir Jóns Baldvins, stigið fram og lýst því hvernig hann misnotaði aðstöðu sína sem sendiherra til þess að nauðungarvista hana á geðdeild í kjölfar þess að hún ásakaði hann um kynferðisbrot.
Framkoma samfélagsins, stjórnkerfisins og heilbrigðiskerfisins við Aldísi Schram er áfellisdómur yfir réttarríkinu á Íslandi og undirstrikar brýna þörf á víðtækum lagabreytingum til aukinnar verndar þeirra sem vistaðir eru nauðugir á geðdeild. Í viðtali við morgunútvarp Rásar 2 í gær skýrði Aldís frá því að hún hafi sex sinnum verið vistuð nauðug á geðdeild að tilefnislausu fyrir tilstuðlan föður síns. Ávallt í kjölfar þess að hún ber honum kynferðisbrot á brýn.
Málflutningur Aldísar er sannfærandi og vísar hún máli sínu til stuðnings í sjúkraskýrslur, lögregluskýrslur, gögn héraðsdóms og dómsmálaráðuneytisins sem og bréf frá Jóni Baldvini til yfirvalda, iðulega rituð á opinbert bréfsefni sendiráðs Íslands. Frásögn Aldísar dregur upp þá mynd að þarna hafi valdamikill maður í samfélaginu í krafti stöðu sinnar getað svipt dóttur sína frelsinu og ærunni. Þetta gat hann án nokkurs viðnáms frá því kerfi sem á að standa vörð um réttindi hennar. Jafnvel með fullu samþykki og aðstoð þessa sama kerfis.
Kerfin geta breyst og samfélagið líka
Frásagnir kvennanna af brotum Jóns Baldvins eru átakanlegar og okkur hlýtur að vera það umhugsunarefni að hafa ekki staðið við bakið á þolendum hans fyrr. Til dæmis árið 2012 þegar Guðrún Harðardóttir birti klámfengin bréf sem hann sendi henni þegar hún var á barnsaldri. Sömuleiðis virðist refsivörslukerfið hafa brugðist Guðrúnu, þegar hún kærði Jón Baldvin fyrir kynferðisbrot gegn sér.
Vitundarvakning samfélagsins um kynferðisbrot, fjölda þeirra, eðli og áhrif hefur vissulega orðið til þess að við erum opnari fyrir því að trúa þolendum í dag en við vorum árið 2012. Sömuleiðis hefur refsivörslukerfið tekið mikilvæg skref í átt að bættu viðmóti fyrir þolendur og betri meðferð kynferðisbrotamála innan þess kerfis. Það má því leyfa sér að vona að hefði Guðrún kært í dag, hefði viðmótið verið annað og betra.
„Staðan í dag er sú að ekkert í íslenskum
lögum kemur í veg fyrir að sagan
hennar Aldísar endurtaki sig“
Sömu sögu er því miður ekki hægt að segja um réttarvörslu í nauðungarvistunarmálum. Staðan í dag er sú að ekkert í íslenskum lögum kemur í veg fyrir að sagan hennar Aldísar endurtaki sig. Í íslenskum lögum er ekkert sem tryggir að valdamiklir menn misnoti ekki stöðu sína og kerfið til þess að læsa þolendur sína og ásakendur inn á geðdeild og draga þannig úr trúverðugleika frásagna þeirra. Því miður er það svo á Íslandi í dag að lagaramminn sem gildir um nauðungarvistanir, hin svokölluðu lögræðislög, er svo veikur að það kæmi ekki á óvart þótt fleiri óhugnanleg dæmi um þetta leyndust í fortíðinni.
Lögræðislög eru ólög
Ástæða þess að ég gríp svo sterkt til orða um lögræðislögin er að þar er svo gott sem enga vörn að finna um rétt þeirra til frelsis og mannvirðingar, sem vista á nauðuga á geðdeild.
Ég er ekki ein um þessa skoðun. Sérfræðinefnd Evrópuráðsins um varnir gegn pyntingum og annarri vanvirðandi eða ómannúðlegri meðferð eða refsingu (CPT- nefndin) hefur bent á alvarlega galla lögræðislaganna allt frá sinni fyrstu heimsókn hingað til lands árið 1994. Nefndin hefur heimsótt Ísland fjórum sinnum og gert úttekt á öllum þeim stofnunum þar sem einstaklingar eru frelsissviptir, þar á meðal geðsjúkrahúsum. Í öllum skýrslum nefndarinnar er þeim tilmælum beint til íslenskra stjórnvalda að herða lagaleg skilyrði fyrir nauðungarvistun, en íslensk stjórnvöld hafa ætíð haft þau tilmæli að engu.
Staðreyndin er sú að það er fáránlega auðvelt að fá varnarlausa manneskju nauðungarvistaða á Íslandi. Skilyrði fyrir nauðungarvistun eru nánast engin og málsmeðferðarréttindi þeirra sem fyrir þessum ólögum verða eru í mýflugumynd. Lögræðislögin okkar eru enda í hrópandi ósamræmi við sambærilega löggjöf í nágrannaríkjunum. Þannig þarf einungis einn íslenskan lækni til þess að svipta einstakling frelsi sínu og vista á geðdeild og það er ekki einu sinni gerð sú lágmarkskrafa að viðkomandi læknir sé geðlæknir. Lögin okkar setja engin skilyrði um að annar, óháður læknir verði að staðfesta greiningu hins fyrsta, eins og er t.d. í Noregi og Skotlandi. Það er heldur engin krafa um það að geðlæknir á geðdeildinni sjálfri verði að gera sjálfstæða úttekt á nauðsyn frelsissviptingarinnar þegar þangað er komið, eins og skylda er t.d. í Danmörku.
Eina lagalega skilyrðið fyrir nauðungarvistun á Íslandi er að læknir - bara einhver læknir - ákveði að viðkomandi sé
„[…] haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða verulegar líkur eru taldar á að svo sé eða ástand hans er þannig að jafna megi til alvarlegs geðsjúkdóms.“
Þessari heimild lækna til frelsissviptingar eru engar aðrar hömlur settar eins og t.d. að lífi viðkomandi sjúklings eða annarra sé annars stefnt í hættu. Engar kröfur eru gerðar um að nauðungarvistun sé síðasta úrræði sem ekki verði gripið til án þess að önnur og vægari hafi verið reynd eða hið minnsta skoðuð. Allt eru þetta skilyrði sem eðlilegt er að setja fyrir jafn alvarlegri valdbeitingu og nauðungarvistun, og er þau að finna í lagaramma í Norðurlöndunum og Skotlandi svo dæmi séu nefnd.
Þol ei órétt
Í skýrslum sínum hefur CPT-Nefndin útskýrt það endurtekið fyrir íslenskum stjórnvöldum að núverandi ákvæði mismuni fólki á grundvelli fötlunar. Enda er ekki réttlætanlegt að hafa lagaheimild til frelsissviptingar á þeim grunni einum að einstaklingur sé haldinn geðsjúkdómi eða að einhver telji “verulegar líkur” á að svo sé.
Í þessari grein er aðeins vikið að þeim þætti laganna er snýr að frelsissviptingunni sjálfri, en ekki að öðrum alvarlegum göllum eins og ákvæðum um þvingaða lyfjameðferð, takmarkað aðgengi nauðungarvistaðra að dómstólum og aðkomu sýslumanns að ákvörðun um framlengingu vistunar. Allt eru þetta atriði sem íslenskum stjórnvöldum hefur ítrekað verið bent á að laga en viðbrögð þeirra fram að þessu hafa því miður einkennst af fullkomnu sinnuleysi og virðingarleysi gagnvart einum viðkvæmasta hópi samfélagsins.
„Þá er mikilvægt að þingið taki fyrir
mál Aldísar svo tryggja megi að
sagan hennar muni aldrei endurtaka sig“
Vonandi mun saga Aldísar Schram hreyfa við þingmönnum og ráðherrum og verða til þess að lögræðislögin verði tekin til gagngerrar endurskoðunar. Fyrir þinginu liggur nú þegar þingsályktunartillaga sem ég lagði fram í annað sinn síðastliðið haust, um heildarendurskoðun á lögræðislögunum með réttindi borgaranna að leiðarljósi. Þá er mikilvægt að þingið taki fyrir mál Aldísar svo tryggja megi að sagan hennar muni aldrei endurtaka sig.
Okkur er ekkert að vanbúnaði.
Athugasemdir