Niðurskurður í leiðakerfi WOW air mun valda fækkun farþega úr 3,5 milljónum í 2,1 milljón á næsta ári. Það er 40% samdráttur milli ára. Þá mun störfum fækka um 350 og starfsfólk verða um þúsund talsins. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Töluverð óvissa ríkir um þróun ferðaþjónustu vegna breytinga hjá WOW air í tengslum við væntanlegan samruna fyrirtækisins við Indigo Partners. Tilkynnt var um uppsagnir 111 fastráðinna starfsmanna í vikunni og fækkun véla úr 20 í 11. Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, segir að fyrirtækið hafi ofmetnast undanfarin ár og vikið af braut lággjaldaflugfélaga.
„Það er viðskiptalíkan sem hefur virkað og þau hafa náð mjög góðum árangri víða í harðri samkeppni við gömlu flugfélögin,“ segir Skúli. „Þetta sáum við þegar við stofnuðum WOW. Og förum af stað með það að leiðarljósi en missum síðan því miður sjónar á því og það var – og ég harma mistökin – það sem við ætlum að leiðrétta. Nú ætlum við aftur að fara í harða lággjaldastefnu. Ég hef fulla trú á því. Þetta er mjög sársaukafull aðgerð en með því að taka þetta skref núna erum við að byggja grunninn að því að geta síðan vaxið áfram sem lággjaldafélag.“
Athugasemdir