Níu af hverjum tíu Íslendingum vilja að Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason segi af sér þingmennsku. Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu. 86 prósent aðspurðra vilja að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segi af sér og litlu færri vilja að þeir Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson segi af sér. Tæplega þrír fjórðu aðspurðra eru þá þeirrar skoðunar að Anna Kolbrún Árnadóttir ætti að segja af sér.
Umræddir sex þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins eru þeir sem sátu samsæti á Klaustri Bar 20. nóvember síðastliðinn. Samskipti þingmannanna voru sem kunnugt er hljóðrituð og má heyra ljótan munnsöfnuð og illmælgi þeirra í garð samþingmanna sinna auk annars nafngreinds fólks.
Þau Gunnar Bragi, Bergþór, Sigmundur Davíð og Anna Kolbrún eru öll þingmenn Miðflokksins en þeir Ólafur og Karl Gauti voru þingmenn Flokks fólksins þar til þeir voru reknir úr flokknum síðastliðinn föstudag. Samkvæmt upplýsingum frá Maskínu var lang lægst hlutfall þeirra sem kusu Miðflokkinn í síðustu alþingiskosningum á því að sexmenningarnir ættu að segja af sér.
Konur eru þá einarðri en karlar í þeirri afstöðu að þingmönnunum sex beri að segja af sér þingmennsku. Þeir sem eru eldri en fimmtugir eru heldur líklegri til að styðja áframhaldandi þingsetu þingmannanna, 8 til 16 prósent fólks á þeim aldri eru andvíg því að þeir eigi að segja af sér en 2 til 10 prósent eru þeirrar skoðunar í öðrum aldrushópum.
Þá kemur fram að ríflega 60 prósent aðspurðra segjast aldrei hafa orðið vitni að viðlíka umræðum síðust tólf mánuði og 19 prósent aðspurðra segjast sjaldan hafa orðið vitni að slíkri orðræðu. Einnig kemur fram að tæplega 87 prósent aðspurðra eru þeirrar skoðunar að það hafi verið rétt hjá fjölmiðlum að birta upptökur af samræðum þingmannanna, eða upplýsingar úr þeim. Aðeins rétt ríflega 10 prósentum þótti það röng ákvörðun.
Svarendur voru 1.311 talsins og komu úr Þjóðgátt Maskínu. Könnunin fór fram dagana 30. nóvember - 3. desember 2018.
Athugasemdir