„Við verðum að muna það að það er fólk af holdi og blóði sem er á bak við þessi ummæli,“ sagði Inga Björk Bjarnadóttir hjá samtökunum Tabú, í ræðu á mótmælum sem fram fóru á Austurvelli í dag, og vísaði þar til þeirra einstaklinga sem teknir voru hvað harðast fyrir í samræðum þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins á Klaustri bar þann 20. nóvember síðastliðinn, en þar ræddu þingmennirnir meðað annars með niðrandi hætti um konur, fatlaða og útlendinga.
„Þetta eru einstaklingar og hópar sem hafa verið niðurlægðir og smættaðir, báðu aldrei um það og gerðu ekkert tangt. Og í fjölmiðlum óma nú fréttir um að þetta valdamesta fólk í samfélaginu hafi kallað þau heimsk, kuntu, tík. Líkami þinn og útlit er smánað, fötlun þín er gerð af aðhlátursefni,“ sagði Inga Björk sem lagði áherslu á það í ræðu sinni að enginn þingmannanna, sem tóku meðal annars þátt í samræðu þar sem talað var með niðrandi hættu um Freyju Haraldsdóttur, fyrrum þingmanni Bjartrar framtíðar, hefði haft samband og beðið hana afsökunar.
„Og vitiði hvað? Enginn af þessum dónum hefur séð sóma sinn í að biðja Freyju Haraldsdóttur afsökunar. Ekki eitt þeirra. Iðrunin er ekki meiri en svo!“
Mikill mannfjöldi
Á annað þúsund manns komu saman á Austurvelli í dag til þess að mótmæla framferði og talsmáta sex þingmanna úr Miðflokki og Flokki fólksins á Klaustur bar þann 20. nóvember síðastliðinn. Á Facebook-síðu mótmælanna kom fram að boðað hefði verið til þeirra „í tilefni af þeim yfirgengilegu fordómum og mannfyrirlitningu sem hópur þingmanna hafði frammi á fundi sínum á Klaustursbarnum í Templarasundi.“
Stundin ræddi við nokkra mótmælendur. „Það er þessi mannfyrirlitning sem maður er bara mjög dapur yfir. Ég er bara sorgmædd miðað við að þetta er hundrað ára afmælið okkar í dag, og við hefðum átt að vera að gleðjast en ekki vera í þessari stöðu,“ sagði Guðný Björnsdóttir, ein þeirra sem mætt var til þess að mótmæla framferði þingmannanna sex.
Merki móralskrar hnignunar
Óhætt er að segja að mótmælin hafi sett ákveðin svip á hátíðarhöld vegna hundrað ára afmælis fullveldis Íslands, en þau byrjuðu stuttu eftir að Katrín Jakobsdóttir forsætisáðherra hafði ávarpað Margréti danadrottningu, Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, og samráðherra sína í ríkisstjórn fyrir framan stjórnarráðið á sérstakri setningu hátíðarhalda í tilefni af hundrað ára afmæli fullveldis landsins.
Þeir viðmælendur Stundarinnar sem sóttu mótmælin töldu sér ekki fært að gera annað til að sýna samstöðu með þeim hópum sem voru níddir hvað mest í samræðum þingmannanna. „Maður fær svona slæmt bragð í munninn eiginlega við það að hlusta á svona illmælgi,“ sagði Lárus Steinþór Guðmundsson, háskólakennari, sem mættur var á Austurvöll til þess að sýna samstöðu. Lárus, sem mætti á mótmæli á Austurvelli í kjölfar hrunsins, sagðist telja að Alþingi hefði aldrei sokkið neðar en nú. „Við erum með núna, rúmum tíu árum seinna, með svona merki ákveðinnar móralskrar hnignunar sem er mjög slæmt að upplifa.“
Þingmenn sýni virðingu
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins, sagði ummæli sexmenninganna afhjúpa ákveðna hatursorðræðu, og það af hálfu valdhafa í landinu. Hún gerði orð Freyju Haraldsdóttur að sínum og lagði áherslu á hættuna sem stafar af því þegar fólk í valdastöðum viðhefur slíka hatursorðræðu. „Vegna þess að það setur fordæmi og hefur vald til þess að normalísera orðræðu og ofbeldismenningu,“ sagði hún ennfremur.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, tók ummæli þingmannanna fyrir með kaldhæðisnlegum hætti. „Það getur engin kelling veitt körlum skjól því kerlingar eru aumingjar sem kunna ekkert nema að væla, fávitar sem halda alltaf sömu ræðuna. Það er kannski hægt að ríða þeim en djöfull sem það fellur hratt á þær, helvítis kerlingaklessurnar. Þeir geta ekki einu sinni drullast til að vera áfram hot, og hvaða gagn er þá hægt að hafa af þeim? Maður spyr sig.“
„Mér finnst skipta svo miklu máli að þeir sem sitja á Alþingi, stjórnmálamenn og þeir sem valdið hafa, að þeir beri virðingu fyrir almenningi og lýðveldinu,“ sagði Bergljót Þorsteinsdóttir, ein mótmælenda. „Og mér fannst þeir afhjúpa heimsku sína, þarna í samræðum sínum þarna á þessum bar, Klaustri. og mér finnst þeim ekki stætt á að sinna vinnunni sinni í framhaldinu,“ sagði Bergljót og lagði áherslu á að 1. desember væri rétti dagurinn til þess að biðja stjórnmálamenn um að vinna af heilindum til að framfylgja lýðræðinu, og minnti um leið á baráttuna fyrir nýrri stjórnarskrá:
Athugasemdir