Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, hefur ein þeirra sex þingmanna sem náðust á upptöku á Klaustur bar sagst íhuga stöðu sína. Segi hún af sér mun fækka um eina konu á þingi og við bætist karlmaður. Þar með yrðu allir sjö þingmenn Miðflokksins karlmenn.
Í viðtali við RÚV í gær sagðist Anna Kolbrún ekki eiga sér málsbætur. „Ég ætla að hugsa mjög vel mína stöðu,“ sagði hún.
Á upptökunum má heyra Önnu Kolbrúnu taka þátt í að gera grín að Freyju Haraldsdóttur, fyrrverandi varaþingkonu, vegna fötlunar hennar. Þá tekur hún undir gagnrýni á Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, en er sú eina viðstödd sem grípur til varnar þegar hinir þingmennirnir gera lítið úr kvenkyns þingmönnum.
Enginn hinna fimm þingmannanna sem náðust á upptöku hefur sagst íhuga afsögn. „Ég hef ekkert brotið af mér,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, í Kastljósi á RÚV í gær.
Anna Kolbrún er 8. þingmaður Norðausturkjördæmis og 2. varaformaður Miðflokksins. Hún var í öðru sæti á lista flokksins í kjördæminu á eftir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni formanni.
Segi Anna Kolbrún af sér mun Þorgrímur Sigmundsson verktaki taka sæti á þingi. Þorgrímur tók sæti sem varaþingmaður í október 2018.
Þannig mundi fækka um eina konu, úr 24 í 23. Yrði hlutfall kvenna á þingi því 36,5%. Konum fækkaði mikið á þingi í kosningunum 2017, úr 30 í 24, og hefur hlutfall kvenna ekki verið lægra síðan eftir kosningar 2007. Lægst hlutfall kvenna var í þingliði Miðflokksins, eða sem nemur 14 prósent.
Athugasemdir