Leigusalar flugvéla WOW air óttast að samruni félagsins og Icelandair muni ekki ganga eftir. Eru þeir tilbúnir að grípa til aðgerða ef WOW air stendur ekki skil á afborgunum sínum um mánaðamótin eftir að félagið hefur greitt starfsfólki sínu laun. Þetta kemur fram í Markaðnum í Fréttablaðinu í dag.
Í bréfi sem Skúli Mogensen forstjóri sendi skuldabréfaeigendum í gær kemur fram að leigusalar flugvélanna fylgist með gangi mála og krefjist nú strangari greiðsluskilmála en áður. Slíkt hafi neikvæð áhrif á sjóðstreymi félagsins. Leigusalarnir eru aðallega fyrirtæki sem sérhæfa sig í fjármögnun og útleigu flugvéla.
WOW air var nálægt því að ganga frá samningum um sölu og endurleigu á flugvélum sínum, en áformin gengu ekki eftir, samkvæmt bréfinu. Hefði það tryggt félaginu innspýtingu upp á um 3 milljarða íslenskra króna. Félagið leitar nú allra leiða til að bæta sjóðstreymi sitt. Er til skoðunar að selja lendingarstæði WOW air við Gatwick flugvöll í London.
Samkvæmt Markaðnum eru mörg mál enn óleyst hvað varðar samruna WOW air og Icelandair. Eitt málið varðar forgangsréttarákvæði í samningum Icelandair við Félag íslenskra atvinnuflugmanna og hvort það muni gilda hjá WOW air gangi kaupin eftir. Með kaupunum yrðu flugmenn WOW air á sama kjarasamningi og flugmenn Icelandair, sem mundi þýða mikla hækkun launakostnaðar hjá lággjaldaflugfélaginu WOW air.
Mikil ólga hefur verið á hlutabréfamarkaði vegna þessara hræringa. Þá skoðar Samkeppniseftirlitið nú hvort tilraunir til að selja WOW air til annars aðila en Icelandair hafi verið fullreyndar, en slíkt er skilyrði til að kaupin verði samþykkt.
Athugasemdir