Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, er ekki hættur að beita sér varðandi endurgreiddan aksturskostnað þingmanna. Forsætisnefnd Alþingis sagði í gær að ekki væru skilyrði fyrir almennri rannsókn á málinu og að ekkert hefði komið fram til að styðja það að Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hefði brotið gegn siðareglum þingmanna í málinu.
Í samtali við Fréttablaðið í dag segir Björn Leví að siðanefnd hefði átt að vera kölluð saman í málinu. Forsætisnefnd sé eingöngu milligönguaðili þegar kemur að því. „Erindi mitt snýr mikið að endurgreiðslu í kringum kosningabaráttu,“ segir Björn Leví. „Þar undir eru ansi margir þingmenn og þeir þingmenn sem voru í forsætisnefnd og hafa kannski fengið endurgreiðslur vegna aksturskostnaðar sem frambjóðendur en ekki sem þingmenn í kosningabaráttu hefðu átt að segja sig frá málinu.“
Í svari sínu til forsætisnefndar viðurkennir Ásmundur að hluti greiðslanna hafi tengst sjónvarpsþáttagerð fyrir ÍNN og orkað tvímælis. Hann hafi því endurgreitt 178 þúsund krónur vegna ferða sinna. Ásmundur fékk 4,6 milljónir króna endurgreiddar vegna aksturskostnaðar í fyrra, mest allra þingmanna.
Þingmenn Pírata gagnrýndu málsmeðferðina á Alþingi í gær. Sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir að Birni Leví hefði verið hótað því að hann yrði mögulega sjálfur látinn sæta ábyrgð samkvæmt siðareglum fyrir að hafa sent inn erindið um rannsóknina.
Athugasemdir