Bakgrunnur og þjálfun erlendra glæpamanna sem koma til landsins í tengslum við starfsemi glæpahópa kallar á aukinn viðbúnað lögreglu. Glæpamennirnir hafa herþjálfun og þekkingu á skotvopnum og bardagatækni, að því kemur fram í svari Embættis ríkislögreglustjóra við fyrirspurn Fréttablaðsins.
Spurt var um fjölgun vopnaðra útkalla og verkefna sérsveitar lögreglu. Í svar embættisins kemur fram að málum þar sem vopn koma við sögu hafi fjölgað að undanförnu. Í svari dómsmálaráðherra við skriflegri fyrirspurn Smára McCarthy, þingmanns Pírata, í vikunni kom fram að útköllum sérsveitar ríkislögreglustjóra fjölgaði um 175 prósent á milli áranna 2016-2017. Á sama tíma fjölgaði tilkynningum um vopnaða einstaklinga um 109 prósent.
„Lögreglan starfar í umboði okkar allra og hefur einokun á valdbeitingu í landinu,“ segir Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsfræði, við Fréttablaðið. „Spurningin aftur á móti er hvort ekki væri heppilegt fyrir sérsveitina og borgarana að hafa óháða nefnd eða einhvern þriðja aðila sem hefur yfirsýn yfir málefni sveitarinnar og þau mál sem koma upp.
Sér í lagi vegna þess að hér er nokkuð stíf skotvopnalöggjöf, lögreglan hefur einokun á valdbeitingu og sérsveitin er vopnuð. Því er ekki óeðlilegt að ytra eftirlit sé starfandi sem veiti henni aðhald og stuðning þegar við á og hafi auga með þessari þróun,“ segir Helgi og vísar til örrar þróunar í vopnaburði í íslenskri löggæslu.
Helgi segir sérsveitina almennt hafa verið farsæla í starfi, lögreglumenn í henni séu vel þjálfaðir og fari í gegnum ströng inntökuskilyrði og próf.
„Þessi aukning á vopnuðum útköllum sérsveitarinnar er samt veruleg á stuttum tíma og vekur upp spurningu um hvort löggæsla á Íslandi sé að færast frá almennri löggæslu eins og við þekkjum hana í átt að sérskipuðum vopnuðum sveitum, að það sé talið nauðsynlegt til að hafa vaðið fyrir neðan sig í æ fleiri tilfellum. Og þá um leið opna á að lögreglan öll verði búin skotvopnum við öll skyldustörf, að það verði smám saman talið eðlilegt í ljósi breyttra aðstæðna,“ segir Helgi.
Athugasemdir