Ég er að vinna fyrir Luxor, við erum að setja upp skautasvellið á Ingólfstorgi, sem verður opnað 1. desember. Það er ansi umfangsmikið verkefni, við erum svona í um það bil viku að setja það upp. Það eru ríflega 100 þúsund ljósaperur í ljósaseríunum sem verða hérna og álgrindurnar sem bera jólaseríurnar, greni, grýlukerti og annað jólaskraut, eru 350 metrar.
Desember finnst mér mjög skemmtilegur mánuður, hann er eiginlega uppáhaldsmánuðurinn minn, enda er ég mikið jólabarn, og ég hlakka mjög til mánaðamótanna. Þetta verkefni, að setja upp skautasvellið, er því mjög skemmtilegt fyrir jólamann eins og mig.
Ég fer kannski ekki mikið sjálfur á skauta en ég gerði það stundum sem krakki og leiddist það nú aldeilis ekki. Ég held að það verði mjög jólalegt og gaman fyrir fólk að kíkja hingað niður á Ingólfstorg og skella sér á skauta á aðventunni. Það er eitthvað sem öll fjölskyldan getur gert saman til að lyfta sér upp í skammdeginu.
Athugasemdir