Miðflokkurinn vill að skattahækkanir sem gripið var til í kjölfar bankahrunsins verði dregnar til baka. Fjármagnstekjuskatt þurfi að lækka eða þrengja skattstofninn. Þetta kemur fram í minnihlutaáliti Birgis Þórarinssonar, þingmanns flokksins í fjárlaganefnd, við vinnslu fjárlagafrumvarpsins á Alþingi.
„Ísland er háskattaríki í alþjóðlegum samanburði,“ segir í álitinu. „Skattahækkanir fyrri ára standa að mestu óhreyfðar. Það ætti að vera forgangsmál að draga til baka þær skattahækkanir sem gripið var til kjölfar bankahrunsins. Á síðasta ári var fjármagnstekjuskattur hækkaður en um leið lofað að endurskoða skattstofninn. Hvergi er minnst á slíka endurskoðun í fjárlagafrumvarpinu. Þegar fjármagnstekjuskatturinn var tekinn upp var lágt skatthlutfall rökstutt með breiðum skattstofni. Nú er skattstofninn enn breiður en skatthlutfallið hefur tvöfaldast.“
Þá þrýstir flokkurinn einnig á lækkun tryggingagjalds og kolefnisgjalds. „Miðflokkurinn leggur áherslu á að nú þegar skuldir ríkisins lækka hratt sé ráðrúm til að huga að lækkun skatta á fólk og fyrirtæki í landinu en ekki stækka ríkisbáknið eins og ríkisstjórnin er sérstaklega áhugasöm um.“
Á sama tíma og Miðflokkurinn vill lækka skatta er bent á að blikur séu á lofti í efnahagsmálum og útgjöld vaxi of hratt. „Í fjárlagafrumvarpinu er of mikill útgjaldavöxtur,“ segir í nefndarálitinu. „Ekki er búið nægilega vel í haginn fyrir það sem fram undan er. Ef forsendur bresta er óljóst til hvaða úrræða stjórnvöld ætla að grípa. Sýna hefði átt meira aðhald í ríkisbúskapnum á tímum góðæris.“
Athugasemdir